144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[14:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er sami háttur hafður á í þessum atkvæðagreiðslum að hæðnistónar heyrast í þingsal frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar ef einhver kemur hingað upp í atkvæðaskýringu og er þeim ekki sammála.

Virðulegi forseti. Ég styð ekki þetta mál og greiði atkvæði á móti því, vegna þess að hér er beinlínis verið að leggja fram tillögu að ríkispeningavæðingu hugmynda vinstri manna í þessum léttlestamálum, það er alveg ljóst, virðulegi forseti. Þetta er svona svipað og þegar Vinstri grænir fóru í borgarstjórnarkosningar með það að öll börn ættu að fá frítt leikskólapláss frá fæðingu, en svo kom fulltrúi þeirra fram í fréttum núna fyrir örfáum dögum og sagði að það væri ekki hægt nema ríkið kæmi að því. Þetta er algjörlega sambærilegt mál. Ríkið á að borga, skattgreiðendur, almenningur á að borga fyrir allar hugmyndir Vinstri grænna og Samfylkingar.