144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við lok þingstarfa er margt sem kemur upp í hugann um það hvernig þingstörfin hafa gengið fram að þessu sinni. Ég minnist ávarps forseta Alþingis við setningu þings 1. október 2013 þar sem hann vék að litlu trausti almennings á störfum þingsins og nefndi greinilegan vilja þingmanna til þess að efla það traust. Í þeim orðum fólst hvatning til okkar þingmanna, um leið áskorun um að fylgja þeim vilja eftir í verki. Það þing leið og nú er annað að renna sitt skeið á enda. Það er augljóst að við höfum misst sjónar á því hlutverki okkar og mikilvæga verkefni.

Eins og oft er hefur hvert okkar vafalítið skoðun á því hverju er um að kenna, jafnvel hverjum er um að kenna, að ekki hefur tekist betur til við að þróa þingstörfin og efla traust á þingstörfunum. En best fer á því að menn forðist að setja sjálfan sig í dómarasætið heldur leitist við, í samstarfi við aðra þingmenn, aðra flokka, að laða fram breytingar sem líklegar eru til að skila árangri á þessu sviði. Og án þess að ég geri einmitt það, að setjast í dómarasætið, ætla ég að nefna nokkra þætti sem ég tel ótvírætt að komi að gagni.

Fyrst vil ég nefna þá skoðun mína að það sé mikilvægt að mál lifi innan kjörtímabilsins í stað þess að þau þurfi að leggja fram að nýju á hverju þingi. Þetta er mál sem þarf reyndar að útfæra mjög vel, en þetta er breyting sem ég tel rétt að vinna að. Við þurfum einnig að ljúka endurskoðun á nokkrum þáttum stjórnarskrárinnar. Ég get tekið undir með þeim sem hér tók síðast til máls um að þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá eru hluti þeirra breytinga sem við ættum að vinna að og koma fram með á haustþinginu, kjósa um á Alþingi og binda síðan í stjórnarskrá í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári.

Það er afar mikilvægt að ræðutími verði afmarkaður betur en nú er á Alþingi. Forseti þingsins hefur bent á mikilvægi nefndastarfsins og að efling þess geti tryggt minni hlutanum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að með öðrum hætti en í löngum ræðum í þingsal. Ég tek mjög undir það sjónarmið. Fleira mætti nefna, svo sem eins og að forseti Alþingis hafi óskorað vald til að stýra þingstörfum í samræmi við starfsáætlun.

Góðir landsmenn. Þótt ég nefni eitt og annað sem við getum breytt í lögum eða reglum til að færa þingstörfin í betra horf og þróun lýðræðisins um leið er það ofar öllu að á Alþingi sé ávallt til staðar virðing fyrir því grundvallarhlutverki sem Alþingi gegnir í stjórnskipan okkar, að engan skugga beri á þann sameiginlega skilning okkar sem erum hér saman komin, á þann sameiginlega skilning okkar sem veljumst hér til starfa, að allir hafi ríka skyldu, án tillits til þess sem segir í lögum eða reglum, til að greiða fyrir framgangi þingstarfanna, haga málflutningi í þinginu með þeim hætti að það endurspegli mikilvægi þeirra mikilvægu starfa sem hér eru unnin og stjórnskipulega stöðu Alþingis, valdamestu stofnunar lýðveldisins. Því miður er það svo oft og tíðum að minnsta tiltrúin virðist berast héðan úr þessum ræðustól. Mesta gagnrýnin á Alþingi kemur oft héðan úr þessum ræðustól. Héðan hafa oft og tíðum harkalegustu orðin fallið um stöðu þingsins. En ég spyr: Hver á að efla virðingu þingsins ef ekki þeir sem hverju sinni hafa boðið sig fram, fengið umboð, tekið sæti á Alþingi, sem bera frá þeim tíma, ásamt með öðrum þeim sem hér sitja hverju sinni, ábyrgð á dagskrá þingsins og framgangi mála í þingsal? Hver annar ætlar að axla meiri ábyrgð en einmitt þetta fólk á hverjum tíma?

Vinna hefur staðið yfir við endurskoðun þingskapa. Nú þegar við stöndum á miðju þessu kjörtímabili tel ég rétt að þingflokkarnir taki því til viðbótar til sérstakrar umræðu sín í milli hvernig við ætlum betur að mæta væntingum landsmanna um að þingstörfin verði markvissari og skili meiri árangri fyrir landsmenn allra. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun koma af fullum heilindum og með ósvikinn vilja til að gera betur að því verki.

Góðir landsmenn. Árangur af störfum ríkisstjórnarinnar er að koma í ljós jafnt og þétt. Kaupmáttur landsmanna hefur vaxið stórum skrefum, verðbólga hefur verið lág, atvinnustig hátt á Íslandi. Við höfum lækkað skatta, afnumið almenn vörugjöld. Nú boðum við lækkanir á tollum. Allt er þetta til þess að styrkja stöðu heimilanna, styrkja stöðu launþeganna í landinu. Skuldaaðgerðir vegna heimilanna hafa komið til framkvæmda, aukið bæði ráðstöfunartekjur fólks og skuldastöðu heimilanna stórlega.

Höfuðstólslækkun fengu tæplega 94.000 einstaklingar í 57.000 fjölskyldum. Skuldir heimilanna, sem voru í hámarki árið 2009 þegar þær fóru í 126% af vergri landsframleiðslu, stefna í um 86%. Það sætir furðu hve margir hafa í þeim tilgangi að því er virðist að koma höggi á ríkisstjórnina gagnrýnt þessar aðgerðir, eins og mér finnst oft og tíðum nánast umhugsunarlaust. Það er eins og þeir hinir sömu hafi tapað algerlega sjónum á mikilvægi þess og þýðingu fyrir heimilin í landinu að þau ráði betur við skuldbindingar sínar. Skuldir heimilanna eru nú lægri en í Bretlandi og að verða áþekkar og í Noregi.

Góðir landsmenn. Þrátt fyrir vaxandi kaupmátt og bjartari horfur hafa kjaradeilur verið áberandi það sem af er þessu ári. Um tíma stefndi í að um helmingur vinnumarkaðarins færi í verkfall, en samningar tókust á almennum markaði og aðkoma stjórnvalda með lækkun skatta, ásamt með öðrum aðgerðum, hjálpaði til við að binda enda á þær deilur.

Ég harma að ekki skuli hafa tekist samkomulag við Bandalag háskólamanna og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga þrátt fyrir að viðræður stæðu yfir svo vikum skipti og ríkið hafi boðið um 20% hækkanir á þessu og næstu árum. Væntingar um að ríkið gæti samið fram úr og upp fyrir almenna markaðinn, sem þó hafði samið um verulegar hækkanir á næstu árum, voru án innstæðu.

Gagnrýni stjórnarandstöðunnar á Alþingi hefur í sjálfu sér ekki falið í sér neinar lausnir. Það hefur ekki verið rætt um margt annað en að það eigi að ganga að öllum kröfum. Gagnrýnin hefur gengið svo langt að meira að segja vilji ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör launþega með skattalækkunum, sem mæltust vel fyrir í röðum aðila vinnumarkaðarins, hafa mælst illa fyrir hér í þinginu.

Mér finnst jafnaðarmenn hafa talað sig í heilan hring í kjaramálum. Fram til þessa hafa þeir sagt: Aukinn jöfnuður skiptir öllu. Þegar hann mælist síðan mestur meðal þjóða á Íslandi segja menn að það þurfi að gera enn betur. Hins vegar þegar háskólamenntaðir stíga fram og vilja skilja sig frá öðrum launþegum styðja þeir það líka, á sama hátt og þeir kröfðust þess að samið yrði við lækna þegar þeir fóru fram á tugprósenta hækkanir og voru þó meðal þeirra sem best höfðu kjörin meðal ríkisstarfsmanna. Þeir segjast í öðru orðinu leggja áherslu á aukinn jöfnuð en styðja í hinu orðinu, hvað á maður að segja, allar kröfur allra hópa um betri kjör.

Rétt er að jöfnuður skiptir miklu fyrir samfélagssáttmálann á Íslandi, en hann getur ekki verið ávallt ofar öllu öðru. Stefna okkar sjálfstæðismanna hefur ætíð verið að lyfta öllum frá botninum. Ég tel að þær aðstæður sem hér hafa skapast, þær deilur sem hér hafa verið, sú þróun sem hefur verið undanfarna mánuði, sýni að það er leiðin til árangurs og framfara.

Góðir Íslendingar. Áætlun um afnám hafta hefur fengið góðar viðtökur, bæði innan þings og utan. Áður en þingi lýkur verður frumvarp um stöðugleikaskatt gert að lögum og málið í heild sinni mun valda straumhvörfum fyrir horfur í efnahagsmálum hér á landi. Sá skuggi sem höftin hafa varpað á stöðu efnahagsmála er þegar tekinn að hörfa og það birtir yfir. Betra lánshæfismat hefur verulega fjárhagslega þýðingu fyrir alla Íslendinga. En í vikunni hækkaði einmitt lánshæfiseinkunn ríkisins hjá Moody's. Þar var tekið fram að ástæðan væri kynning á vandlega undirbúnum aðgerðum til að losa fjármagnshöft, væntingar um betri skuldastöðu og aðhald í ríkisfjármálum og betra regluverk til að varðveita fjármálastöðugleika. Þetta er mikilvæg viðurkenning á stöðu íslensks efnahagslífs og ríkisfjármálanna.

Grunnstoðir atvinnulífsins standa vel, ferðamönnum fjölgar, jafnvel umfram bjartsýnustu spár. Eftirspurn eftir hreinni orku fer vaxandi. Fjölbreytni í iðnaðaruppbyggingunni eykst hröðum skrefum. Sjávarútvegurinn stendur vel. Fyrirtækin hafa styrkt sig mjög á undanförnum árum. Staða fiskstofnanna og þróun markaða hefur verið okkur hagstæð. Samkvæmt áætlunum í ríkisfjármálum munu skuldahlutföll ríkisins lækka verulega á næstu árum og hefur þá ekki verið tekið tillit til þeirra möguleika til enn frekari lækkunar skulda sem kunna að opnast við áætlun um afnám fjármagnshafta.

Þegar maður tekur alla þessa þætti saman og við Íslendingar lyftum okkur aðeins upp, lyftum upp höfðinu, lítum í kringum okkur, horfum til þess hvers konar vandamál herja á margar af nágrannaþjóðum okkar, öðrum þjóðum í Evrópu, fylgjumst með fréttunum frá degi til dags núna. Menn segja að sameiginlegur gjaldmiðillinn sé lausn allra vanda. En er það svo um alla Evrópu einmitt í dag? Mér sýnist ekki. Menn skoða atvinnustigið á Íslandi og bera saman við önnur lönd. Stöðu grunnatvinnuveganna. Hagvöxt. Við lifum nú eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið seinni tíma.

Að öllu því samanlögðu er algerlega augljóst að við Íslendingar höfum það í hendi okkar í dag að vinna áfram úr þessari stöðu, halda áfram að bæta lífskjörin fyrir þá sem bágust hafa kjörin, þar er styrkur okkar að vaxa hröðum skrefum um þessar mundir, til þess að gera betur á því sviði eins og fyrir alla aðra Íslendinga. Þess vegna segi ég: Staðan hefur sjaldan verið jafn björt og nú.