144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Forseti. Góðir Íslendingar. Það eru forréttindi að vera treyst af kjósendum fyrir því verkefni að sitja á Alþingi Íslendinga. Hér tökumst við á um hugmyndir og tökum ákvarðanir sem móta samfélagið okkar til framtíðar.

Ég get ekki staðið hér í kvöld án þess að minnast látins félaga og vinar, Péturs H. Blöndals, sem lést fyrir skömmu og sat á þinginu fram að því. Pétur var duglegur eldhugi, óhræddur við að standa á eigin sannfæringu, óháð því hvort það skapaði honum vinsældir eða ekki. Hann brann fyrir mál eins og jafnrétti, mannréttindi, málefni eldri borgara og öryrkja og trúði á frelsi einstaklingsins í víðasta skilningi. Þá eiginleika Péturs að standa fast á eigin sannfæringu, bera virðingu fyrir skoðunum annarra og vera óhræddur við að taka erfiðar ákvarðanir ættu allir góðir þingmenn að tileinka sér.

Líkt og Pétur barðist fyrir vil ég búa í landi jafnra tækifæra þar sem allir einstaklingar eiga jafna möguleika á því að skapa sín eigin tækifæri og njóta ávaxta eigin verka. Samfélagið okkar samanstendur af fólki með margvíslegar hugmyndir og mismunandi krafta. Þessar hugmyndir og þennan kraft á fólk að geta nýtt sér á sínum forsendum, ekki á forsendum stjórnmálamanna eða kerfisins. Ég vil búa í opnu og lýðræðislegu samfélagi sem stendur vörð um mannréttindi allra, óháð þjóðfélagsstöðu, skoðunum, kyni eða efnahag.

Ísland á að vera draumaland ungs fólks til að búa í. Á því kjörtímabili sem nú er hálfnað höfum við tekið mörg góð skref í rétta átt, unnið ötullega að því að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika sem er forsenda annarra þátta. Mikilvægustu verkefnin fram undan eru frekari einföldun skattkerfisins og afnám tolla, aukið jafnrétti, skilvirkara húsnæðiskerfi og losun gjaldeyrishafta.

Baráttan fyrir auknu jafnrétti krefst framlags beggja kynja og fólks úr öllum flokkum. Aukið jafnrétti er efnahagsmál. Fyrirtækin í landinu hafa ekki efni á öðru en að nýta krafta og hæfileika kvenna jafnt sem karla. Reynsla fyrirtækja sem hafa treyst konum til æðstu metorða sýnir það.

Aukið frelsi einstaklinga og atvinnulífs er besta leiðin að bættum lífskjörum. Aðeins með vexti getum við aukið velferð samfélagsins. Það á að vera grundvallarstef í öllum okkar störfum að hagsmunir atvinnulífsins og heimilanna fari saman, enda eru þessir hagsmunir hvor sín hliðin á sama peningnum.

Það er í atvinnulífinu sem verðmætin verða til, verðmætin sem standa undir lífskjörum okkar allra, menntun og velferð. Og til að auka vöxtinn þurfa einstaklingar og fyrirtæki að búa við frelsi, frelsi til að velja sjálf í hvað tekjurnar fara, frelsi til að velja sér nám og starf við hæfi og frelsi til að tjá skoðanir sínar í ræðu og riti.

Ramminn sem stjórnmálin skapa á að hvetja fólk til framtakssemi. Það á að borga sig að vinna. Ef við missum sjónar á því markmiði að veita fólki og fyrirtækjum frelsi vegna þess að við erum svo upptekin við að ákveða í hvað á að ráðstafa þeim fjármunum sem í ríkiskassann koma töpum við bæði frelsinu og fjármununum. Við eigum ekki að vera hrædd við að veita fyrirtækjum landsins auknar heimildir, t.d. til að ráða til sín erlenda sérfræðinga. Við verðum að sjá tækifærin sem í því felast að taka á móti nýjum Íslendingum sem hér vilja stofna heimili og taka þátt í okkar samfélagi.

Aukið frelsi í viðskiptum bætir möguleika atvinnulífsins til að vaxa og þróast og leiðir af sér aukna samkeppni neytendum til hagsbóta. Á undanförnum áratugum hafa margir góðir áfangar náðst varðandi aukið viðskiptafrelsi og hefur hið opinbera dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum. Nú er svo komið að til undantekninga heyrir ef ríki eða sveitarfélög standa í verslunarrekstri. Einkasala ríkisins á áfengi er þar undantekning en við höldum áfram að vinna að afnámi einokunar þar.

Í lok þessa þingvetrar sjáum við loks ávexti þess starfs sem lagt hefur verið af mörkum undanfarna mánuði hér í þinginu. Ýmis framfaramál hafa þegar verið samþykkt en önnur þurfa að bíða betri tíma. Mesti styrinn hefur staðið um breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar við rammaáætlun sem fól í sér að setja virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár og Hagavatnsvirkjun í nýtingarflokk. Virkjunarkostirnir sem um ræðir í Þjórsá eru afar vel rannsakaðir og fyllilega tímabært að taka ákvörðun um hvort þá eigi að nýta eða vernda. Við þurfum á orkunni að halda til að byggja upp frekari atvinnutækifæri til að bæta lífskjör landsmanna.

Stærsta verkefni íslenskra stjórnmálamanna á næstu mánuðum er að afnema gjaldeyrishöftin. Það er því sérstaklega ánægjulegt að við erum lögð af stað í þá vegferð að afnema höftin undir styrkri stjórn fjármálaráðherra og í góðu samstarfi allra flokka hér á þinginu. Megum við bera gæfu til að taka þau skref á næstu missirum saman. Það er slík samstaða sem landið okkar þarf á að halda. Frjáls úr höftum eru okkur allir vegir færir.

Þegar losun hafta er náð væri vel við hæfi að fara með lokavers ljóðsins „Ísland“ eftir Guðrúnu Auðunsdóttur frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum:

Þegar sól á vorsins vegi

vermir bæði storð og lá,

fagnar þjóðin fögrum degi

frelsisins, sem nú má sjá.

Þá er hátíð helgra vætta,

hjörtun full af kærleiksyl.

Samspil allra Íslands ætta

austri frá og norðurs til.

Góðar stundir.