144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Í kappleik stjórnmálanna er tekist á um leiðir að markmiðum sem miða að því að bæta lífskjör heillar þjóðar. Tilvera okkar frá einum degi til þess næsta er í húfi. Í þeirri keppni á enginn að þurfa að tapa. Hvernig metum við árangurinn af störfum og framgöngu okkar á Alþingi og ríkisstjórnarinnar? Hverju höfum við áorkað nú þegar við erum hálfnuð með þetta kjörtímabil? Nú er staður og stund til að fara yfir hvað hefur verið gert, hvers vegna og til hvers.

Heimilin eru undirstaða og drifkraftur efnahagslífsins og ríkisstjórnin setti heimilin í forgang. Skuldsett hagkerfi er þunglamalegt og því var lagt upp með að vinna sérstaklega á skuldum heimila og ríkissjóðs en leggja ávallt áherslu á efnahagslegan stöðugleika.

Við skulum nú meta árangurinn á grundvelli markmiða sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

1. Koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Hvers vegna? Ná niður skuldum ríkissjóðs, lækka vaxtagreiðslur og vinna að stöðugleika.

2. Ná niður skuldum heimila. Til hvers? Til að auka ráðstöfunartekjur þeirra.

3. Aðgerðaáætlun til að losa um fjármagnshöftin. Til hvers? Freista þess að leysa viðkvæma stöðu þjóðarbúsins og þann greiðslujafnaðarvanda sem steðjar að okkur.

Hvert er stöðumatið nú þegar við metum þetta hér á hálfnuðu kjörtímabili, í hálfnuðum kappleik, og skoðum hvernig til hefur tekist?

Kæru landsmenn. Við höfum komið böndum á ríkisfjármálin og skilað fjárlögum með afgangi hvort ár í stað halla og skuldasöfnunar sex ár þar á undan. Sérlega ánægjulegt er að sjá tekjurnar 2014 vel umfram áætlun fjárlaga. Efnahagsleg staða íslensku þjóðarinnar hefur þannig verið að styrkjast og einkennist af því að hér hefur náðst sögulegur efnahagslegur stöðugleiki með lægri verðbólgu, minna atvinnuleysi, auknum kaupmætti, aukinni eftirspurn í hagkerfinu og hagvexti sem skilar sér í jákvæðum áhrifum á afkomu ríkissjóðs. Þannig hefur ríkisstjórnin náð því markmiði sínu að koma ríkisrekstrinum í jafnvægi og skapað skilyrði til lengri tíma til að minnka álögur á heimilin og atvinnulífið og stuðla að aukinni fjárfestingu til framtíðaruppbyggingar í hagkerfinu. Miklu máli skiptir að fylgja eftir þeim árangri að vinna að lækkun skulda ríkissjóðs og styrkja þannig stöðu hans enn frekar.

Snúum okkur að lækkun skulda heimilanna. Það var sett í hefðbundið stefnumótunarferli þegar ríkisstjórnin tók við stjórnartaumunum. 18 mánuðum síðar hafa 57 þús. heimili fengið lækkun á höfuðstól húsnæðislána og 34 þús. einstaklingar sóttu um séreignarsparnaðarleiðina og geta ýmist nýtt þann sparnað án skattgreiðslu til niðurgreiðslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána eða sparað til íbúðakaupa. Þau heimili sem ekki voru lengur með eftirstöðvar húsnæðislána en áttu rétt á lækkun fengu sérstakan persónuafslátt sem nýtist næstu fjögur árin. Saman virkuðu þessar tvær leiðir, skuldaniðurfellingin og séreignarsparnaðarleiðin, vel á efnahagslífið þar sem þær vega hvor aðra upp. Þegar ráðstöfunargeta heimilanna eykst virkar einkasparnaðurinn sem dempari á móti.

Skuldir heimilanna hafa því lækkað hratt, hraðar en í nágrannalöndum okkar, og eru nú til jafns við það sem þær voru árið 2004. Erum við að uppfylla þessi markmið? Já, kæru landsmenn. Það að ná tökum á ríkisfjármálunum og framkvæma skuldaleiðréttingu þegar á fyrri hluta kjörtímabilsins er sannarlega mælanlegur árangur, árangur í formi þess að uppfylla loforð og tengd markmið.

Mikil vinna fór þegar í gang í upphafi kjörtímabils við að greina þann greiðslujafnaðarvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem sköpuðust við slit fallinna fjármálafyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins. Gríðarlega vönduð og góð vinna hefur nú birst í formi ígrundaðrar áætlunar um losun fjármagnshafta sem allir sameinast um að vinna ötullega að svo hún nái fram að ganga landi og þjóð til heilla. Úrlausn slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja án neikvæðra áhrifa á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins er mikilvægasta úrlausnarefnið hér og nú. Áætlunin hefur fengið mjög jákvæða umfjöllun, bæði hérlendis og erlendis. Dæmi um þann trúverðugleika sem áætlunin nýtur er nýleg hækkun á lánshæfi Íslands.

Kæru landsmenn. Við þessa miklu aðgerð skiptir mestu máli að eyða áhættu, verja stöðugleikann og efnahagslega velferð þjóðarinnar.