144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Herra forseti. Góðir áhorfendur. Mikilvægasta hlutverk okkar sem sitjum hér á þingi, mikilvægasta hlutverk allra þeirra sem stunda stjórnmál, er að hlusta. Og það nægir ekki að verða bara við kröfunni um að hlusta á fjögurra ára fresti þegar kosningabaráttan bankar upp á.

En það getur verið erfitt að hlusta þegar það eina sem heyrist utan frá er þögn. Undanfarnar vikur og mánuði hefur ótrúleg orka leyst úr læðingi á Íslandi. Þessi orka snýst um að úthýsa þögninni, varpa ljósi á samfélagsmein, hrópa á réttlátara og betra samfélag.

Hér á ég auðvitað við kvennabyltinguna sem gegnir ýmsum nöfnum, samfélagsbylgju sem tók að rísa á Twitter undir yfirskriftinni #FreeTheNipple og hefur síðan tekið á sig ýmsar myndir, byltingu sem er að mestu borin uppi af ungum konum.

Þótt sá sem hér stendur sé búsettur alla leið suður á meginlandi Evrópu leyndi krafturinn í #FreeTheNipple sér ekki þegar bylgjan reis.

Mér brá. Ég hafði ekki áður áttað mig á því hvað hrelliklám, ein tegund af kynferðislegu rafrænu ofbeldi, er stór hluti af lífi ungra kvenna, hversu margar höfðu virkilega upplifað það á eigin skinni og hversu margar hafa búið í stöðugum ótta við að viðkvæmum myndum af þeim væri deilt með hverjum sem er, hvenær sem er, hvar sem er — og án þeirra samþykkis.

Mér brá af því að þótt ég vissi af vandanum hafði ég ekki áttað mig á því hversu útbreiddur og hversu alvarlegur þessi vandi væri. En ég fylltist á sama tíma mikilli von og gríðarlegu stolti þegar ég sá þúsundir ungra kvenna standa saman, allar sem ein gegn óværunni, fastar fyrir og óhræddar.

Forseti. Við megum öll vera stolt af þeim.

#FreeTheNipple-bylgjunni fylgdu svo margar aðrar sjálfsprottnar byltingar gegn þögninni. Sú nýjasta er mögulega sú sterkasta, þá voru konur hvattar til að deila reynslu sinni af ofbeldi í hópi annarra kvenna á Facebook. Umræðan barst okkur körlunum síðar þegar sögur og myndir fóru að flæða um allt. Þolendur ofbeldis merktu sig appelsínugulum andlitum og gul andlit urðu táknmynd allra hinna sem þekkja þolendur ofbeldis, okkar allra hinna.

Appelsínugulu andlitin voru ótrúlega mörg, svo mörg að mér leið helst eins og náttúruhamfarir hefðu orðið. En í náttúruhamförum hefðu viðbrögðin ekki staðið á sér, í náttúruhamförum skipuleggja stjórnvöld fjöldahjálparmiðstöðvar, þau bretta upp ermarnar og taka til óspilltra málanna. Þau laga einfaldlega það sem lagað verður.

En hver voru viðbrögðin þegar þagnarmúrinn brast? Þau voru lítil, og að minnsta kosti ekki í neinu samræmi við umfang vandans.

Góðir landsmenn. Öll þekkjum við þolendur ofbeldis og öll þekkjum við gerendur. Að því leytinu verða viðbrögðin við kvennabyltingunni alltaf önnur en við náttúruhamförum. Okkur nægir nefnilega ekki að fá bara almannavarnir til að rigga upp fjöldahjálparmiðstöð og semja aðgerðaáætlun fyrir þolendur ofbeldis, eins og eftir stóran jarðskjálfta.

Þótt yfirskrift nýjustu bylgjunnar hafi verið #þöggun og #konurtala væru það til lengdar litið algjörlega ófullnægjandi viðbrögð að láta okkur nægja að hjálpa þolendum ofbeldis að opna sig um reynsluna. Það nægir ekki bara að leyfa þeim að tala. Svo þurfum við líka að gæta að hinni hliðinni sem er líklega erfiðasti hlutinn, þegar við hlustum þurfum við að horfast í augu við gerendurna.

Þegar Íslendingar upplifa stór áföll bregðast þeir við. Við erum svo lánsöm að hafa byggt upp innviði til að takast á við flest það sem náttúran lætur okkur finna fyrir. Sjaldan er spurt um verðmiða þegar þarf að byggja upp eftir jarðskjálfta eða jökulhlaup, en af hverju er sálfræðiþjónusta stífð úr hnefa til þolenda kynferðisofbeldis? Í þeirri umræðu sem kemur reglulega upp um að rafbyssuvæða lögregluna virðist kostnaður aldrei vera sami þröskuldurinn og þegar ræddar eru leiðir til að stórefla kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Hverju sætir? Við höfum varið milljörðum til að verjast snjóflóðum, en hvaða upphæðum hefur verið varið til að fræða lögregluþjóna og dómara um eðli og meðferð kynferðisbrotamála? Hvers vegna gengur ekki hraðar að fjölga kvenkyns dómurum? Hvar eru forvarnasjóðirnir og forvarnaátökin sem ættu að vera stöðugt í gangi? Hvar eru rannsóknirnar á umfangi og þjóðhagslegum áhrifum ofbeldis, rannsóknir á því hvers vegna svo mikill fjöldi kvenna í okkar góða samfélagi hefur orðið fyrir nauðgun, kynferðisofbeldi og áreitni?

Nú þurfum við öll að hlusta; ríkisstjórnin, þingið og þjóðin. Og við þurfum að bregðast við. Við þurfum að mæta kröfum byltingarinnar. Stöndum með stelpunum okkar. Þær — og strákarnir — eiga það skilið.

Þið öll þarna úti, takk fyrir byltinguna.