144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:57]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Elsku landsmenn. Nú líður að lokum þessa þings og þá er tilefni til að spyrja sig: Höfum við gengið til góðs? Eins og við höfum heyrt í kvöld sýnist sitt hverjum en ég leyfi mér að fullyrða að þessi vetur hafi einkennst af ólgu, bæði hér á Alþingi sem og víðar í samfélaginu. Það er ekkert skrýtið, það eru allir komnir með hundleiða á ástandinu.

Í vikunni hitti ég gamlan mann á rölti mínu í kringum þinghúsið og barst talið að þingstörfunum. Eins og maður heyrir oft þótti honum þrefið á Alþingi óþolandi og síðan sagði hann að við þingmenn þyrftum bara, með leyfi forseta, „að haga okkur eins og menn“. Þetta vakti athygli mína. Hvað þýðir það í þessu samhengi að haga sér eins og maður? Okkur finnst öllum að það liggi í augum uppi en það er kannski ekki jafn einfalt og það virðist.

Á dögunum minntist ég á það í ræðu hérna að ég hefði upplifað sumarkomuna í birkiskógi við Breiðafjörð. Þar heyrðist ekki mannsins mál fyrir fuglasöng og þótt ég skilji ekki fuglamál upplifði ég gleði í fuglasöngnum sem hafði góð áhrif á mig. Fuglarnir settu mér tóninn án þess að vera meðvitaðir um það. Það fékk mig til þess að hugsa um Alþingi, að hér situr alls konar fólk. Við ræðum mikilvæg mál, Alþingi er málstofa og þessi málstofa er meira að segja mjög áberandi. Henni er sjónvarpað og helstu fjölmiðlar fylgjast vel með. Þannig senda umræður á þingi tón út í samfélagið. Það er ekki bara hvað við erum að ræða sem skiptir máli heldur líka hvernig við gerum það.

Þingmennskan er þjónustustarf. Okkur ber að vinna að almannahagsmunum en ekki einkahagsmunum, og ekki bara okkar kjósenda eða okkar kjördæmis heldur allra Íslendinga, líka þeirra sem eru ófæddir í dag. Þegar við hugum að framtíðinni er það ekki bara út frá efnahagslegum forsendum, það snýst ekki síður um mannréttindi, um umhverfismál og um réttláta skiptingu auðs og tækifæra.

Þetta er mikil ábyrgð. Þegar við stofnuðum flokkinn okkar nefndum við hann Bjarta framtíð til að minna okkur á þessa ábyrgð og ekki veitir af. Í önnum þingstarfa og baráttunni um málefni dagsins í dag er hægt að týna stóru myndinni. Alþingi er valdastofnun, bæði beint og óbeint. Alþingi var stofnað á öðruvísi tímum en ríkja í dag, áður en samgöngur, samskiptaleiðir og menntun urðu jafn aðgengileg og almenn og nú er orðið. Margar hefðir og venjur í okkar störfum bera þess merki hvernig fólk umgekkst vald við aðrar aðstæður. En eðli valdsins hefur breyst með breyttum tímum. Krafan um aukið samráð og þátttöku almennings í valdinu er hávær alls staðar í samfélaginu og fullkomlega eðlileg. Alþingi verður að svara þessu kalli. Það verður að vinna áfram að endurskoðun stjórnarskrár og að því að uppfæra þingsköp og vinnubrögð á Alþingi.

Fyrir nokkrum árum var ég í vinnuferð í Lundúnum og eftir langan morgun við bókainnkaup fór ég með kollega mínum á veitingahús í mat. Við borðið við hliðina á okkur settist kall. Hann var klæddur í einhvers konar hermannabúning, alsettur medalíum og með uppsnúið yfirvararskegg, reffilegur kall og hundgamall. Við tókum tal saman og upp úr kafinu kom að kallinn, sem var 96 ára gamall, hafði barist í skotgröfunum á vesturvígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann var á leiðinni í þinghúsið að taka þátt í minningarathöfn. Hann sagði okkur að þetta hefði vissulega verið mjög ömurleg reynsla en að hann hefði verið heppinn, að liðsforinginn sem var yfir honum hefði staðið fyrir dansæfingum á frívöktum. Ég sé þá enn fyrir mér, einkennisklædda kalla með skrautleg yfirvararskegg að dansa í neðanjarðarbyrgjum meðan sprengjurnar flugu yfir. Kallinn sagði að aðalatriðið við dans væri að athyglin væri alltaf á dansfélaganum, að dansinn yrði aldrei góður nema dansfélaginn fengi að skína. Velheppnaður dans væri samvinnuverkefni og þessi lærdómur hefði nýst honum betur en nokkuð annað á langri ævi.

Mér finnst þessi lexía eiga við hér á Alþingi. Það má segja að málefnaleg átök í stjórnmálum, sem eru jú hlutverk okkar, séu eins konar dans og þá skiptir máli hvernig við dönsum. Oft finnst mér okkur takast vel upp. Mörg mál hafa komist í gegn á þessum þingvetri en mörg mál hefur líka dagað uppi. Sá sem hér stendur er ekkert jafn ánægður með öll þessi mál og sitt sýnist hverjum.

Afdrif þessara mála hafa ekki síst farið eftir því hvernig málin hafa verið unnin og undirbúin, hvernig samtalið milli flokka, milli stjórnar og stjórnarandstöðu hefur verið, þ.e. hvernig hinn pólitíski dans hefur verið stiginn. Við þurfum að hafa kjark, ekki til þess að beita valdi og snúa andstæðinga okkar niður, við þurfum að hafa kjarkinn til þess að dansa vel og vinna að niðurstöðum sem sem flestir geta sætt sig við. Fyrst og fremst þurfum við þó að hafa kjarkinn til þess að láta dansinn alltaf snúast um almannahagsmuni og framtíðina. Við eigum ekki bara að dansa kringum gullkálfinn, við eigum að dansa um virðinguna, um gleðina og ástina.

Að lokum vil ég þakka forseta og alþingismönnum fyrir veturinn. Ég vil einnig sérstaklega þakka starfsfólki Alþingis fyrir frábær störf og sérstaklega fyrir þolinmæðina á þessu furðulega sumarþingi síðustu vikurnar. — Góðar stundir, góða ferð og góða skemmtun.