144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[22:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Kæru landsmenn. Það hefur staðið yfir fullkominn stormur fyrir fylgisaukningu Pírata að undanförnu. Síðustu mánuði hefur ekki mikið blásið frá hægri eða vinstri, það hefur verið sterk norðanátt. Stjórnmálaumræðan hefur mikið til snúist um valdhroka, spillingu og óheiðarleika. Eftirspurn hefur því aukist eftir gegnsæi og beinna lýðræði. Hún hefur aukist eftir aðhaldi með kjörnum fulltrúum og meiri aðkomu landsmanna að ákvarðanatöku um það sem þá varðar.

Með norðanáttina í seglunum hafa Píratar risið hratt og ítrekað mælst stærsti flokkur landsins. Við teljum að þessar tölur endurspegli vilja landsmanna til að breyta, ekki fólki, heldur stjórnkerfi landsins, stjórnskipan Íslands.

Á þjóðfundinum 2009 kom saman 1.231 landsmaður, valinn af handahófi, til að safna saman hugmyndum og tillögum að því samfélagi sem Íslendingar vilja sjá vaxa og dafna á komandi árum. Af þeim 30 þús. tillögum og hugmyndum sem fram komu var heiðarleiki afgerandi mikilvægasta gildið í hugum landsmanna. Þar á eftir komu virðing, réttlæti og jafnrétti. Á fundinum varð líka til framtíðarsýn á hverju borði og voru orðin samfélag, menntun, heilbrigðisþjónusta og auðlindir landsmönnum mikilvæg.

Á þjóðfundinum 2010 komu saman 950 landsmenn, aftur valdir af handahófi, til að fjalla um í þetta skipti þau gildi sem leggja skyldi til grundvallar nýrri stjórnarskrá og ræða innihald stjórnarskrárinnar út frá þeim.

Mikið var kallað eftir virkara og beinna lýðræði, meiri valddreifingu og auknara aðhaldi með valdhöfum. Því kom ekki á óvart að meiri hluti landsmanna sagðist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vilja grundvalla nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs sem vann tillögur þjóðfundarins að miklu leyti inn í lagafrumvarp.

Gildi og framtíðarsýn landsmanna eru mannúðleg, réttlát og praktísk. Grunnstefna Pírata snýst um að landsmenn geti gert þessa sýn að veruleika. Gildi eins og aukið gegnsæi og beinna lýðræði, sem nú rísa upp á yfirborðið á Íslandi og víða um heim, eru grunngildi Pírata. Píratar komu, rétt eins og aðrar hreyfingar sem rísa hátt í norðanátt stjórnmálanna í dag, út úr þessum gildum og er fleytt áfram af undiröldu nýrrar forgangsröðunar gilda sem hefur átt sér stað vegna upplýsingatæknibyltingarinnar, vegna samfélagsmiðlanna, vegna internetsins.

Til skemmri tíma mun þennan norðanstorm eitthvað lægja og fylgi Pírata fara niður. En rétt eins og veðurfarið á jörðinni er að breytast er veðurfarið í stjórnmálunum víða um heim að breytast og til lengri tíma mun sú veðurfarsbreyting lyfta þeim sem rétt eins og Píratar vinna að því að vernda og efla nýja forgangsröðun á gildum fólks.

Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, benti á það fyrir aldamótin að allar stóru tæknibyltingarnar síðustu 500 ár hafi bylt efnahagskerfinu, samfélaginu og stjórnmálunum — í þessari röð. Hann sagði að án efa mundu raunveruleg byltingaráhrif þessarar upplýsingatæknibyltingar birtast okkur mjög bráðlega og leiða til nýs risastórs iðnaðar.

Svo springur Facebook út á netinu og nýr iðnaður samfélagsmiðlunar opnar dyrnar á það sem bandaríski forsetaráðgjafinn Zbigniew Brzezinski kallaði í grein í New York Times 2008 stjórnmálalega vitundarvakningu heimsins. Hann bendir á að í fyrsta skipti í mannkynssögunni hafi næstum allt mannkyn orðið stjórnmálalega meðvitað og í stjórnmálalegum samskiptum sín á milli. Þetta er bylting í stjórnmálalegu umhverfi heimsins. Fólk sem tekur þátt í samfélagsumræðunni og á samfélagsmiðlum hefur miklu ríkari væntingar til góðs aðgengis að upplýsingum og til meiri þátttöku í ákvarðanatöku um málefni sem það varðar.

Þessi gildi eru framar í forgangsröðun fólks í dag en þau voru í upphafi aldarinnar þegar ráðandi öfl í stjórnmálum og fjölmiðlum höfðu í raun einokun á miðlun og túlkun frétta.

Það sama gerðist í síðustu upplýsingatæknibyltingu þegar prentvél Gutenbergs kom fólki fram hjá upplýsingaeinokun, þá presta og prinsa. Í þá daga tók það hins vegar miklu lengri tíma, meiri peninga og fleiri mannslíf fyrir þessa nýju prenttækni að fara frá því að bylta efnahagslífinu yfir í það að bylta samfélaginu og yfir í það að bylta stjórnmálunum.

Þegar breytt eftirspurn er aðeins stormur sem stendur yfir í stuttan tíma geta ráðandi öfl beðið hann af sér. En þegar þær breytingar eru til komnar vegna grundvallarveðurfarsbreytinga, grundvallarbreytingar á gildismati fólks, munu þeir sem þrjóskast við að leyfa þessum gildum að rísa enda á því að sökkva sjálfir.