144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

samgönguáætlun.

[11:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. innanríkisráðherra, sem fer með samgöngumál. Það er sá málaflokkur sem við þingmenn fáum hvað oftast fyrirspurnir um, ekki síst núna þegar samgönguáætlun hefur tvisvar verið lögð fram án þess að hún hafi verið afgreidd. Og bara til upprifjunar þá var samgönguáætlun til fjögurra ára lögð hér fram í fyrra, í lok marsmánaðar. Hún fékk verulega umfjöllun hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Að mig minnir lauk þeirri umfjöllun þó ekki. Ný og endurskoðuð fjögurra ára samgönguáætlun kom fram, lögð fram af hæstv. innanríkisráðherra núna undir lok þings, þ.e. í lok maí. En nú liggur fyrir að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur lokið umfjöllun sinni, hún leggur raunar til verulegar breytingar, verulegar viðbætur við þá áætlun sem hæstv. ráðherra lagði fram. Minni hlutinn styður þær viðbætur, að því er mér hefur skilist, en leggur til að auki aðrar viðbætur.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra um svör við fyrirspurnum í ljósi þess að við munum ekki ljúka þessu máli, og við vitum að beðið er eftir þeim um land allt. Sjálf hef ég öðlast gríðarlega þekkingu á veganúmerum í gegnum allar þessar fyrirspurnir frá fólki um land allt sem spyr mig hvað eigi nákvæmlega að gera við þjóðveg 30 og þjóðveg 643, og svo mætti lengi telja. Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um í fyrsta lagi er: Eigum við von á því að þessi áætlun verði þá lögð fram strax í haust þannig að unnt verði að ljúka henni? Og í öðru lagi, því að um það er líka töluvert spurt: Eigum við þá ekki von á því að hæstv. ráðherra leggi fram endurskoðaða áætlun með viðbótum meiri hlutans eða verður sett í gang einhver ný vinna í ráðuneytinu til þess að vinna úr tillögum meiri hlutans? Það finnst mér mikilvægt. Það er að minnsta kosti það sem framkvæmdaþyrsta landsmenn þyrstir í að vita.