144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

samgönguáætlun.

[11:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er nú reyndar svo að þetta er í þriðja sinn sem samgönguáætlun er lögð fram og nær ekki fram að ganga. Ég lét það þó fylgja þegar ég mælti fyrir henni mjög seint nú í vor, og bað þingið afsökunar á því hversu seint hún væri fram komin, að það væri ekkert víst að hægt væri að afgreiða hana. Af minni hálfu var það því alltaf ljóst, í ljósi þess hve seint hún kom fram, að það væri alveg eins líklegt að hún næði ekki fram að ganga.

Eins og við þekkjum fara umtalsverðir peningar í samgöngumál og í þeirri samgönguáætlun sem þarna var lögð fram var um að ræða töluverða viðbót við fjármagn til samgöngumála, sérstaklega þó á síðari hluta tímabilsins. En sá ljóður er alltaf á tillögum um samgönguáætlun að hún er aldrei fjármögnuð fyrr en fjárlagafrumvarpið hefur verið samþykkt. Og kannski sjáum við það betur núna þegar líða tekur á haustmánuðina og þegar samgönguáætlun verður lögð fram að nýju, sem ég ráðgeri snemma í haust, þá munum við að sjálfsögðu vera búin að sjá að minnsta kosti hvernig árið 2016 lítur út.

Það er mjög ólíklegt að ég muni leggja fram samgönguáætlun, að minnsta kosti þegar litið er til fyrri hluta tímabilsins, þar sem um er að ræða einhverjar óskatölur í henni sem ekki standast síðan fjárlög. Við vitum að það er mikil fjárfestingarþörf í samgöngum. En allar þær óskir sem landsmenn hafa og hafa birst í þinginu og sem ég hef heyrt, og ég hef sjálf miklar óskir, get ég ekki uppfyllt í þeirri tillögu sem ég mun leggja fram, það er alveg ljóst. Ég tel hins vegar mikilvægt að þegar hún kemur fram, og ég vonast svo sannarlega til þess að það verði mjög snemma á haustmánuðum, muni ég einnig geta lagt fram tólf ára samgönguáætlun. Þá fær maður kannski betri yfirsýn yfir þennan málaflokk næstu árin.

Mér finnst hins vegar mikilvægt, og ég held að það mundi horfa til bóta að hún rímaði betur við áætlanir í ríkisfjármálum þannig að hún sé ekki einhver óskalisti heldur raunveruleg áætlun um aðgerðir sem hægt er að fara í.