144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[11:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið eins konar þumalputtaregla í íslenskri samfélagsumræðu um nokkurt skeið að ef maður vill hleypa upp fundi talar maður um málefni Reykjavíkurflugvallar. Það hefur stundum gerst í þessum sal að færst hefur mikill hiti í umræðu um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Mig langar að freista þess að eiga yfirvegaða og rólega og huggulega umræðu um framtíðarmöguleika á flugvallarstæði í nágrenni Reykjavíkur eða í Reykjavík. Nú er nýútkomin mjög góð og vönduð skýrsla frá Rögnunefndinni svokölluðu þar sem farið er yfir þá möguleika sem helstir eru í stöðunni. Auðvitað er gengið út frá ákveðnum forsendum í skýrslunni, til dæmis er gengið út frá þeirri forsendu að fjárfesta þurfi í innanlandsflugi og það geti verið gott fyrir landsmenn og aðra sem hingað koma að samtvinna meira millilandaflugið og innanlandsflugið. Margir sem nota innanlandsflugið nota það til þess að fara í millilandaflug, bara svo dæmi sé tekið. Miðað við þessa fjárfestingu, miðað við áætlaða fjölgun ferðamanna til landsins kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að flugvöllur í Hvassahrauni sé hagkvæmasti kosturinn. Auðvitað færum við ekki flugvöllinn þangað fyrir kl. 17 í dag, heldur tekur það dálítinn tíma, þannig að nefndin gerir líka ráð fyrir að farið verði í aðgerðir til að styrkja grundvöll Vatnsmýrarflugvallar þangað til sú færsla á sér stað. Í skýrslunni segir að í Hvassahrauni séu möguleikarnir bestir til stækkunar og veðurskilyrði séu mjög svipuð og í Vatnsmýri.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um viðhorf hennar til skýrslunnar, hvernig henni líst á niðurstöður skýrslunnar og hver verði næstu skref af hálfu ráðuneytisins.