144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

[11:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er rétt að minna á að málskot þjóðarinnar sjálfrar er fyrir aðhald almennings gagnvart löggjafarsamkomunni. Því þarf réttur þjóðarinnar að vera raunhæfur og virkur án allra þröskulda. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hver hans sýn sé á hve hátt hlutfall þjóðarinnar þurfi til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum og hvort hann telji aðra þröskulda réttlætanlega en að til dæmis 10% eða 15% þjóðarinnar geti kallað eftir slíku.

Ef málskotsrétturinn verður jafnframt réttur þriðjungs þingmanna er það ávinningur þingheims. Þá þarf þingið að vinna meira saman á þverpólitískum grunni og meiri hlutinn þarf að eiga meira samráð um meiri háttar mál. Þessi málskotsréttur er í raun og veru bara til þess að bæta vinnubrögð á þingi. Þessi tvö verkfæri eru í eðli sínu ólík. Er hæstv. ráðherra sammála mér um það? Þessi verkfæri eru með mjög ólíkan tilgang aðhalds, og hvað er þá að því að bæði verkfærin verði hluti af stjórnarskrá sem hluti af þeirri lýðræðisveislu sem eldhúsdagsumræðurnar leiddu í ljós? Þar mátti greina vilja hjá nánast öllum flokkum innan þings til að hrinda í framkvæmd alvörulýðræðisumbótum.

Í ljósi orðræðunnar í gær langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér framhald endurskoðunar á stjórnarskránni umfram þær örfáu breytingar sem hafa verið til umfjöllunar að undanförnu.