144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[12:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Breytingartillaga minni hlutans núna og það hvernig hún er útskýrð eða rökstudd er algerlega í anda þess að menn horfast í augu við mismunandi stöðu og mismunandi greiðslugetu mismunandi flokka útgerðaraðila. Ég held að það sé alveg nákvæmlega rétt hugsun sem breytingartillaga hv. þingmanna Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Kristjáns L. Möllers boðar að auka nokkuð í stuðninginn og leyfa honum að teygja sig nokkru lengra upp í hóp millistórra fyrirtækja. Það held ég að sé algerlega rétt áhersla. Hún styður auðvitað mjög vel við bakið á minnstu einingunum og stuðningurinn teygir sig síðan talsvert langt upp í hóp millistærra fyrirtækja. Eða er það ekki það sem menn eru að tala um og það sem menn hafa áhyggjur af, að þar liggi vandinn?

Ég held að ég hafi gert ágætlega grein fyrir sjónarmiðum mínum í þessum efnum og það standi ekkert sérstaklega upp á mig í þeim efnum. Eða hefur hv. þingmaður séð marga aðra flytja hálftíma erindi með milli 20 og 30 glærum og útlistað nákvæmlega, nokkurn veginn í smáatriðum, röksemdirnar fyrir því að sjávarútvegurinn hafi vel burði til að greiða auðlindagjald af þessari stærðargráðu, 16 milljarða plús, ekki afmarkað hugtak, enda eðlilegt þegar menn ræða þetta undir þessum formerkjum. Ég ræddi reyndar það bil sem ég teldi vera þarna í erindi mínu, gætu verið 18–22 eða eitthvað á þeim nótum. Niðurstaðan er einfaldlega sú, og horfum á stóru myndina og fjármunamyndunina, á afkomuna, á styrk sjávarútvegsins sem ánægjulega er búinn að endurheimta að fullu sinn fjárhagslega styrk eins og hann var bestur fyrir hrun, að miðað við núverandi góða afkomu er 16–18 milljarða auðlindagjaldtaka hófleg. Ég minni á og vek athygli á orðinu „hófleg“. Það er hófleg hlutdeild eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar, fyrir sinn skerf.