144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar við 3. umr.

Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir að því var vísað til hennar eftir 2. umr. Nefndin fjallaði sérstaklega um 5. tölulið. 12. gr. frumvarpsins sem kveður á um brottfall hverfisskipulags úr skipulagslögum, nr. 123/2010, en þau áform voru nokkuð gagnrýnd af hálfu umsagnaraðila.

Það er mat meiri hlutans er að ekki sé nauðsynlegt að fella brott ákvæði um hverfisskipulag til að frumvarpið nái markmiðum sínum. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að ákvæði um hverfisskipulag haldi gildi, en til einföldunar að tilvísun um varðveislugildi byggðar verði felld úr ákvæðinu.

Það er mat meiri hlutans að mikilvægt sé að sá ráðherra sem fer með þjóðmenningarmál, og þar með hlutverk sem lýtur að verndarsvæðum í byggð, og sá ráðherra sem fer með skipulagsmál hafi með sér samráð um framkvæmd málefna sem lúta að verndarsvæðum í byggð og skipulagi. Sú vinna tæki m.a. til undirbúnings að setningu reglugerða varðandi skipulag og verndarsvæði í byggð, þannig að vinna sveitarfélaga varðandi verndarsvæði í byggð og skipulag samræmist sem mest og best. Slík samvinna er að auki til þess fallin að undirbyggja frekar að framkvæmd laganna nái markmiðum þeirra.

Meiri hluti nefndarinnar vekur athygli á því að hugtakanotkun og orðskýringar er varða hverfisskipulag eru ekki ítarlegar í skipulagslögum, nr. 123/2010. Meiri hlutinn telur því brýnt að verði þetta frumvarp að lögum fari fram endurskoðun á 37. gr. skipulagslaga, með það í huga að skýrar sé kveðið á um hverfisskipulag og í hverju það felist. Af hálfu meiri hluta nefndarinnar er áréttað að ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010, um húsakönnun er óbreytt og ekki er lögð til nein breyting á því fyrirkomulagi, samanber álit nefndarinnar við 2. umr. á þingskjali 1440.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Elsa Lára Arnardóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Daðason.

Verði fyrirliggjandi breytingartillaga að lögum mun 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga verða sem hér segir:

Þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skal lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru með gerð húsakönnunar. Þegar unnið er að slíku hverfisskipulagi er heimilt að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar eru til deiliskipulagsáætlana í nýrri byggð og leggja frekar áherslu á almennar reglur um yfirbragð byggðarinnar auk almennra rammaskilmála. Reglur um málsmeðferð deiliskipulags gilda um hverfisskipulag eftir því sem við á.

Þá finnst mér eðlilegt að fara yfir það hér að við meðferð málsins hefur aðkoma almennings að ákvörðunum um verndarsvæði í byggð verið styrkt verulega, enda samræmist það markmiðum frumvarpsins og aðkoma almennings er mikilvæg til þess að markmiðin náist. Hugtakanotkun hefur verið samræmd og bætt og með þeim breytingum sem nú eru lagðar til varðandi húsakönnun og hverfisskipulag ásamt breytingum varðandi hverfisvernd, er samþykkt var við 2. umr., er samspil frumvarpsins við skipulagslög bætt. Eru þær breytingar til þess fallnar að vinna sveitarfélaga samkvæmt frumvarpinu gangi greiðlega og nái markmiðum þess.