144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Eldar Ástþórsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar sem við í Bjartri framtíð stöndum að. Björt framtíð studdi ekki fjárveitingu til Bakka á sínum tíma vegna vinnubragðanna sem við gagnrýndum og við gagnrýnum einnig þessi vinnubrögð hér og nú. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa upp úr minnihlutaálitinu:

„Minni hlutinn er ekki andsnúinn áframhaldandi uppbyggingu á Bakka en telur hins vegar ámælisvert að fella brott þá fjárhæð til verkefnisins sem upphaflega var samþykkt á Alþingi enda glatast þar með nauðsynlegt aðhald í ríkisfjármálum.

Upphaflega var lögfest 1.800 millj. kr. framlag til að gera vegtengingu milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka miðað við verðlag ársins 2012. Nú er ráðgert að verkefnið kosti 3.100 millj. kr. Því er ljóst að ekki var vandað nægilega vel til undirbúnings í upphafi. Jafnframt er engin trygging fyrir því að framkvæmdirnar verði ekki enn kostnaðarsamari með tilheyrandi byrði á fjárhag ríkisins. Með því að fella fjárhæðina brott úr lögunum, líkt og meiri hlutinn hefur lagt til, er framkvæmdarvaldinu ekki veitt nægilegt aðhald. Það er sérstaklega ámælisvert þegar reikningurinn fyrir umframkostnaði sem þessum er sendur skattgreiðendum landsins.

Minni hlutinn telur vinnubrögð sem þessi óásættanleg og getur því ekki stutt frumvarpið.“