144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[12:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nokkur orð fyrst um almenna stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til iðnaðar- og atvinnuuppbyggingar, ekki til að reyna að svara bullinu sem hér hefur verið haft uppi af hálfu tveggja síðustu hv. þingmanna, heldur bara þingtíðindanna og sannleikans vegna.

Við höfum ekki lagst gegn öllum iðnaði eða orkunýtingu í landinu. (Gripið fram í.) Við höfum talað fyrir fjölbreyttri atvinnustefnu og við beittum okkur með þeim hætti á síðasta kjörtímabili. Það tókst að færa málin á Húsavík og í Suður-Þingeyjarsýslum úr farvegi þeirra hugmyndar að reyna að troða þangað inn einu risastóru álveri, sem hefði þurft á allri orku allra háhitasvæða að halda og væntanlega Skjálfandafljót í viðbót og þar með þurrka það upp á einu bretti. Það hefði verið af nánast óviðráðanlegri stærðargráðu fyrir þetta afmarkaða vinnusvæði og hefði haft hrikalegar afleiðingar, jafnvel enn stærri skaða en menn sáu fyrir austan, óviðráðanlega þenslu á framkvæmdatíma og væntanlega mikil eftirköst og timburmenn þar á eftir. Það tókst að skapa samstöðu um að horfast í augu við veruleikann um að þær hugmyndir voru óraunhæfar og óskynsamlegar og í raun og veru var það Landsvirkjun sem var að lokum aðalgerandinn í þeim efnum því að Landsvirkjun sagði einfaldlega: Það er ekki á dagskrá hjá okkur að lofa fyrir fram afhendingu á einhverjum mörg hundruð megavöttum úr háhitasvæðum sem við erum rétt að byrja að rannsaka. Það er ekki á dagskrá. Okkar aðferðafræði gengur út á að fara inn á svæðin og virkja þau í áföngum, læra á þau, safna þekkingu og meta vel og vandlega hve mikla nýtingu þau þola án þess að hún verði ágeng. Dæmin héðan frá Hellisheiðinni hræða. Dæmin frá Reykjanesinu hræða þar sem menn héldu að Hengilssvæðið væri mun stærra en það reynist svo vera. Það átti að byggja aðra virkjun við Hverahlíð sem menn eru núna hættir við af því að sækja þarf gufuna þangað og flytja hana í Hellisheiðarvirkjun til að hún gæti keyrt á fullum afköstum. Þar fóru menn hratt í það sem þeir ætluðu að væri fullnýting svæðisins. En Landsvirkjun hefur mótað mjög skynsamlega aðferðafræði í þessu, hún fellur vel að því að hefja nýtinguna með samningum við meðalstóran kaupanda sem kaupir mátulegan skammt úr 1. áfanga virkjunar á Þeistareykjum.

Við höfum oft verið hædd og spottuð fyrir að tala um eitthvað annað í atvinnumálum en álbræðslu og menn gerðu gjarnan kröfu til okkar um það hér á árunum nokkuð sposkir á svip og spurðu: Hvað er þetta „eitthvað annað“? Menn töluðu eins og einu úrlausnir í atvinnumálum væru stóru pakkalausnirnar. En hvað hefur gerst á Íslandi síðustu fimm til sjö ár, eða frá hruni skulum við segja? Það er einmitt „eitthvað annað“ en álbræðslur sem eru að keyra Ísland upp úr öldudalnum. Það er vissulega ágætur gangur í mörgum af undirstöðugreinum raunhagkerfisins eins og það var, í sjávarútvegi, landbúnaði, matvælaiðnaði, en það er líka mikill uppgangur annarra greina sem voru sjaldnast nefndar þegar menn voru með stóriðjugleraugun á nefinu. Umfram allt annað er það auðvitað ferðaþjónustan, sem í þessum skilningi má sjálfsagt kalla eitthvað annað, sem drifið hefur vöxtinn áfram. En það hafa líka góðir hlutir gerst á sviði iðnaðar- og orkunýtingar og það er von að mönnum sé það sárt, stóriðjupostulunum sjálfum, hversu margir góðir hlutir úr tíð síðustu ríkisstjórnar komast í farveg og eru núna að líta dagsins ljós, algerlega í anda þeirrar stefnu að það væri gott fyrir okkur að sjá aukna fjölbreytni á þessu sviði, sjá fleiri lítil og meðalstór fyrirtæki, sjá nýjar iðngreinar koma inn í landið í staðinn fyrir að bæta við þær sem fyrir voru. Og hvað hefur gerst? Við höfum séð myndarlega uppbyggingu í gagnaverum. Við sjáum nú að minnsta kosti tvö kísilver fara af stað og ýmsan frekari iðnað og það er ánægjulegt, (Gripið fram í: Mjög.) mjög ánægjulegt. Það er ekki í mótsögn við grundvallarstefnu Vinstri grænna í atvinnumálum heldur algerlega í anda hennar, enda höfum við stuðlað að því að auka fjölbreytnina, fá inn aðila sem skapa hlutfallslega mörg og verðmæt störf á hverja orkueiningu og ná inn aukinni fjölbreytni, að hafa ekki öll eggin í sömu körfu því að þá er ólíklegra að allt sveiflist upp í einu og að allt sveiflist niður í einu.

Margt fleira mætti auðvitað nefna sem verið hefur ánægjulegt að fylgjast með, eins og til dæmis kraftinn í skapandi greinum, ef við notum nú það samheiti yfir ýmsar hugvitsgreinar, hönnun, menningu, arkitektúr eða hvað það er. Alls konar starfsemi er að blómgast og er í vaxandi mæli að verða útflutningsstarfsemi sem við getum í grófum dráttum flokkað undir hinn stóra geira skapandi greina, enda var við hann stutt og reynt að hlúa að því að einstakar greinar hans gætu dafnað, stofnaðir voru sjóðir til stuðnings hverri grein fyrir sig og stuðningur var við útflutningsverkefni og landkynningarverkefni og annað í þeim dúr. Það er ánægjulegt að sjá hvernig sú þróun hefur verið. Hún er farsæl fyrir okkur. Það birtist í því að þrátt fyrir gríðarlega góðan gang í íslenskum sjávarútvegi og bestu stöðu hans sennilega nokkru sinni áttunda góðærið í röð, þá er hann ekki lengur númer eitt þegar kemur að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Það er ekki vegna þess að honum hafi gengið illa, nei. Það er vegna þess að öðrum greinum, þ.e. fyrst og fremst ferðaþjónustunni og flugsamgöngum hefur gengið svo gríðarlega vel að þær eru orðnar svo þó nokkru munar stærsti nettógjaldeyrisskapandi þjóðarbúsins með á fjórða hundrað milljarða kr. í gjaldeyristekjum. Það er glæsilegt. Þessu hefðum við sennilega fá trúað fyrir 10–20 árum og vorum við þó mörg bjartsýn á framtíð ferðaþjónustunnar. Það var ég strax fyrir óralöngu síðan þegar ég var ferðamálaráðherra í tæp þrjú ár og trúði algerlega á að ferðaþjónustan og landið hefðu allt sem þyrfti til að geta gert okkur að einni af stóru þjóðunum á heimsvísu sem ferðamannaþjóð í skilningnum: umsvif greinarinnar borið saman við fólksfjölda á Íslandi og það hefur gerst. Við erum orðin „per definition“ mjög stór ferðamennskuþjóð með 330 þúsund íbúa og 1,2–1,3 milljónir erlendra ferðamanna eða erlendra gesta á ári.

Þá að Bakka, herra forseti. Ég vona að Húsvíkingar og Þingeyingar fylgist með ræðuhöldunum og ég veit reyndar að þeir gera það margir. Ég þarf þess vegna ekki að svara sérstaklega hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur eða hv. þm. Jóni Gunnarssyni eða þess vegna ekki hv. þm. Eldari Ástþórssyni, en ég tek þó fram að mér finnst málefnalegra að segja sig frá því að styðja málið á þeim forsendum sem hann leggur fram og stendur við og Björt framtíð gerði á sínum tíma þó að það væru auðvitað vonbrigði. Ég tel að það hafi ekki verið rétt niðurstaða hjá þeim að styðja ekki við þetta góða mál af því einu að ekki væri nákvæmlega hægt að reikna út upp á krónur og aura hvert framlag ríkisins í nauðsynlega innviðauppbyggingu þyrfti að vera. En hvernig er þetta mál?

Menn hafa horft til orkunnar í Þingeyjarsýslum um áraraðir og ýmsar tilraunir og ýmis áform hafa verið á prjónunum um að hefja nýtingu þeirra. Heimamenn vilja að sjálfsögðu helst sjá nýtingu á að minnsta kosti hluta orkunnar á sínu svæði og það er líka hagkvæmt. Þá þarf ekki að flytja hana um langan veg og þá þarf ekki að byggja upp eins dýr flutningsmannvirki landshluta á milli o.s.frv. Þá bætist það við að því miður er það þannig að Húsavík og Suður-Þingeyjarsýsla eru svæði sem átt hafa í mikilli vörn undanfarin býsna mörg ár. Reyndar mætti segja að það sé á margan hátt kraftaverk hversu vel Húsavík hefur þó staðið af sér mikil áföll sem byggðin hefur mátt þola í sjávarútveginum þegar kaupfélag, mjólkursamlag og mikil starfsemi varð gjaldþrota, þegar tilraunir til að byggja upp aðra atvinnustarfsemi í staðinn, eins og harðviðarþurrkun, reyndust mjög kostnaðarsamar og gengu ekki upp. Og þannig mætti lengi telja. Húsavík hefur staðið þetta af sér en hún hefur ekki vaxið og íbúasamsetningin er orðin óhagstæð í þeim skilningi að samfélagið er aldrað. Það sama á við víðast hvar í uppsveitum Suður-Þingeyjarsýslu. Ef við horfum til dæmis á meðalaldur íbúa á því svæði þá er hann hár, börn eru hlutfallslega fá í skólum o.s.frv. og við vitum öll hvað það þýðir byggðalega, það er byggðarlag í vörn og það er ekki bjart fram undan nema eitthvað boði betri tíð. Þess vegna hefur ekki verið erfitt að reyna að leggja Húsvíkingum og Þingeyingum lið í því að koma einhverjum raunhæfum, og ég endurtek: raunhæfum áformum um uppbyggingu af stað. Ég á ekki erfitt með það og átti ekki erfitt með það. Ég skammast mín ekki fyrir það, ég er þvert á móti stoltur af því, stoltur af því öllu saman og gleðst virkilega yfir því þegar ég ek núna um Húsavík og sé framkvæmdirnar fara af stað, ég gleðst virkilega yfir því.

En það var hár þröskuldur yfir að komast að sannfæra menn um að þarna væri staður til að setja sig niður með uppbyggingu, það lá alveg fyrir. Svæðið er það sem oft er kallað kalt í þeim skilningi. Það er langt frá suðvesturhorninu, þetta er tiltölulega lítið samfélag og þó að Akureyri sé í þessu færi er það engu að síður þannig að menn horfa til margra þátta innviðanna og slíkra hluta þegar þeir velta því fyrir sér hvort þarna sé skynsamlegt að setja sig niður. Veruleikinn er sá að ef við höfum opið hús og bjóðum mönnum að velja hvar þeir vilja vera á Íslandi með hvaða starfsemi sem er, þá velja þeir Keflavíkurflugvöll og nágrenni eða Reykjavík og nágrenni. Öll svona uppbygging verður þar nema við höfum einhverja stefnu um að þannig ætlum við ekki að hafa Ísland. Við viljum reyna að hlúa að byggð og skapa vaxtarmöguleika og tækifæri í öllum landshlutum og sérstaklega horfa til svæða sem verið hafa og eru í mikilli vörn, eins og Húsavík og Suður-Þingeyjarsýsla og hluti af Norður-Þingeyjarsýslu, þó að betur hafi gengið þar á norðausturhorninu eins og á Þórshöfn og Vopnafirði, og svo aftur á Akureyri og í Eyjafirði, það er kraftmikið svæði sem ekki þarf að hafa sömu áhyggjur af. En þarna á milli, á milli Miðnorðurlands og Miðausturlands, hefur verið svæði sem verið hefur í vörn og því erum við vonandi að breyta með þessu. Það munu gerast mjög góðir hlutir á þessu svæði þegar Vaðlaheiðargöng verða komin í gagnið, þegar uppbyggingin á Bakka er um garð gengin og þar er orðinn öflugur 120 manna vinnustaður með hátt menntunarstig og afleidda starfsemi.

Fleira mun gerast því að um leið og ísinn hefur verið brotinn og iðnaðarsvæðið er orðið eitt af þeim ákjósanlegustu í norðanverðri Evrópu, því að það verður það með glæsilegri tengingu við höfnina og orku í upplandinu, munu margir verða áhugasamir um að setja sig þar niður. Það er búið að brjóta ísinn. Það er búið að leggja í nauðsynlegar innviðafjárfestingar og það er það sem hér er verið að ræða, þ.e. nauðsynlegar innviðafjárfestingar til að opna upp nýjan valkost fyrir staðsetningu lítilla og meðalstórra iðnfyrirtækja á Íslandi, fjölga valkostunum, bæta þeim fjórða við, eða hvað við viljum kalla það, þannig að það séu ekki bara Suðurnes, Reykjavík og Grundartangi og Reyðarfjörður sem komi til greina. Þetta hefur þjóðhagslegt gildi.

Mun ríkið fara illa út úr þessu? Er þetta dýrt? Jú, jú, svona innviðafjárfesting kostar pening. Segjum að það fari í 3–4 milljarðar í það. En hvað halda menn að ríkið fái í tekjur af 500–800 manns sem verða þarna við störf og borga skatta á næstu tveimur árum og síðan 120 manna vinnustaður með hátt menntunarstig og góð laun í framhaldinu? Það verður ágætt. Þetta er fjárfesting í innviðum sem mun skapa mikil þjóðhagsleg verðmæti og hagvöxt. Reiknað var út á sínum tíma miðað við þáverandi aðstæður í hagkerfinu að þetta gæti haft allt að 0,5% hagvöxt í för með sér, bara þessar framkvæmdir, því að þær eru umtalsverðar. Það er bygging Landsvirkjunar á Þeistareykjum, það er bygging Landsnets á línu þaðan og niður til Húsavíkur, það eru framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga í innviðunum og svo bygging verksmiðjunnar sjálfrar og allt sem henni tengist. Hér er því um myndarlega meðalstóra fjárfestingu að ræða. Er það þá ægilegt áfall að vegtengingin frá höfninni, tenging hafnarinnar við iðnaðarsvæðið, reynist nokkru dýrari en fyrsta lauslega mat Vegagerðarinnar gerði ráð fyrir? Já, í þeim skilningi er alltaf vont þegar slíkir hlutir breytast en það er ekki stóráfall fyrir ríkið. Eða er einhver að tala um að hætta við? (Gripið fram í: Björt framtíð.) Vill einhver hætta við? Mér finnst ágætt að fá það fram. Og ef það er ekki svo að tuðið í hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og hv. þm. Jóni Gunnarssyni sé ávísun á að þau vilji hætta við, þá er mér alveg nákvæmlega sama um það og ég geri ráð fyrir að það eigi við um okkur báða, bara alveg nákvæmlega sama um það. Þau mega messa yfir sjálfum sér um það alveg eins og þau vilja. Það eina sem mundi gera mig órólegan væri ef einhverjir væru í alvöru að tala um að slá þessa miklu og góðu framkvæmd af út af því einu að það reynist allmiklu dýrara að fara undir Húsavikurhöfðann en Vegagerðin gerði ráð fyrir í fyrsta lauslega mati sínu. En hvaða tölur áttum við að nota þegar við komum með málið hér til þings? Hvaða tölur áttum við að nota aðrar en tölurnar frá Vegagerðinni? Ég er ekki einn af þeim sem væla hér og viðurkenna það og játa það upp á sig að þetta mál hafi verið illa undirbúið. Það var það ekki. En það byggði á þeim takmörkuðu upplýsingum sem menn höfðu til að slá á þetta lauslegu mati. Það hefur nú reynst svo að af varúðarsjónarmiðum er gert ráð fyrir dýrari framkvæmd. Það er ekki endilega víst að hún verði það en menn vilja hafa vaðið fyrir neðan sig, meðal annars í ljósi reynslunnar.

Menn vita hvað getur verið við að glíma þegar farið er í jarðgangagerð grunnt í landinu og þar sem bergþrýstingurinn er lítill og þá verða menn að vera undir það búnir og það getur þurft að styrkja göngin mikið. Þau þurfa líka að vera stór og vel útbúin til að þjóna tilgangi sínum, þ.e. flutningaæðin frá vonandi stækkandi iðnaðarsvæði á Bakka í framtíðinni og niður á höfnina. En um leið verður þarna mjög glæsileg aðstaða, góð tenging með eins kílómetra jarðgöngum. Ekki verða þau ófær á veturna sökum snjóa. Ég er sannfærður um það enda hef ég heyrt marga fagaðila segja að þarna muni verða eitt mest spennandi iðnaðarsvæði af sínu tagi fyrir lítil og meðalstór iðnfyrirtæki. Augljóslega verða þau það því að þarna verður ekki troðið niður einhverjum risum, en þarna gætu nokkur fyrirtæki með mjög auðveldum hætti komist fyrir á þeirri lóð sem nú þegar er búið að afmarka til iðnaðaruppbyggingar nyrst í landi Norðurþings. Það er ákaflega er gott ef það gerist með jöfnum og rólegum skrefum en ekki einhverjum kollsteypum þannig að þetta verði góð þróun sem unnt er að hafa góð tök á, sem samfélagið sjálft ræður sem mest við og sem hefur sem minnst jafnvægisleysi í för með sér hvað varðar búsetuþróun, húsnæðis- og fasteignamarkað o.s.frv. Þingeyingar eru alveg staðráðnir í að læra af mistökum sem aðrir hafa gert og forðast að lenda í því að skilja eftir nokkrar tómar blokkir í bjartsýniskasti þegar svona framkvæmdir ganga um garð, heldur takast á við þetta af yfirvegun og vanda það allt saman. Ég er bjartsýnn á að það muni verða.

Ég er, eins og forseti væntanlega heyrir, alveg ákaflega ánægður með stöðuna á þessu máli, stoltur af því á alla enda og kanta og alveg hundsama um tuðið í þeim sem hér hafa verið að væla út af þessu máli.