144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[12:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér var flutt tímamótaræða sem í öllu eðlilegu samhengi ætti að vera forsíðufrétt í fréttatímum fjölmiðla, tímamótaræða um uppbyggingu stóriðju á grundvelli orkuframkvæmda, mjög umdeildra, á Þeistareykjum eða jarðvarmavirkjana í Mývatnssveit sem fyrrverandi formaður Vinstri grænna hefur mært hér í hástert og ég gæti ekki verið meira sammála hv. þingmanni um það sem hann ræddi hér. Þetta hefði getað verið ræða flutt úr mínum munni, þannig að ég sé nú bara fyrir mér að við getum haft náið og gott samstarf um þessi mál vonandi í framtíðinni.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við þurfum að fjölga eggjunum. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um staðsetningar, við eigum að horfa til landsbyggðarinnar og styrkja byggð í landinu á grundvelli orkuframleiðslu, algerlega sammála. Og ég sé fyrir mér áframhaldandi uppbyggingu á Bakka í tengslum við orkuframleiðslu við Mývatn, umdeildum jarðvarmavirkjunum við Mývatn. Þetta er ánægjulegur stuðningur við orkuframkvæmdir við orkufrekan iðnað.

Ég vil því spyrja hv. þingmann að gefnu tilefni hvort hann sé þá ekki jafnmikill stuðningsmaður Silicor, verksmiðjunnar við Grundartanga, Thorsil, kísilmálmverksmiðjunnar við Helguvík. Reyndar er það þannig með járnblendið að því fylgir átta sinnum meiri mengun á framleitt tonn en í álinu. Það er ágætt að halda því til haga að stuðningur Vinstri grænna er orðinn mjög opinber við það og mengunin er ekki lengur vandamál í þeirra huga. Ég vil spyrja hv. þingmann um væntingar íbúa á mjög köldu svæði í Norðvesturkjördæmi, Skagaströnd, Blönduósi, Sauðárkróki, að þar sé mögulega að koma álverksmiðja, tiltölulega lítil álverksmiðja sem ekki þarf nema rétt um 200 megavött sem er reyndar svolítið meira en er við Húsavík. En ef þeir fá ekki annað, getur þá þingmaðurinn stutt þá í Norðvesturkjördæmi, á því kalda svæði, í þeim efnum? Og þá er rétt að minnast á þingsályktunartillögu allra þingmanna í Norðvesturkjördæmi um stuðning við slík verkefni.

Velkominn í hópinn, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.