144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[14:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Um það frumvarp sem hér er til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (tilfærsla á viðmiðun aflavinnslu, ráðstöfun makríls, framlenging bráðabirgðaákvæða o.fl.) sem flutt er af meiri hluta atvinnuveganefndar, vil ég segja þetta: Við í minni hlutanum ákváðum að vera ekki flutningsmenn að þessu frumvarpi sem auðvitað tengist vinnu nefndarinnar varðandi bæði makrílfrumvarp og veiðigjöld, þar sem ekkert var rætt um það í fjórar vikur. Meðal annars þess vegna var ákveðið að standa ekki að því að flytja þetta frumvarp. Við sögðum líka að breytingarnar hefðu að sjálfsögðu átt að koma sem frumvarp um breytingar á þessum lögum frá ráðherra. En gott og vel. Þetta tekur svolítið mið af því ástandi sem hefur verið. Mál hafa komið seint inn, mál hafa verið unnin seint og ef til vill þess vegna hefur ráðherrann hugsað sem svo að það væri of langt ferli að flytja þetta sem hefðbundið strjórnarfrumvarp, sem færi þá leið í gegnum ríkisstjórn o.s.frv.

Í 1. gr. frumvarpsins, sem er breyting á 4. mgr. 8. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, er í raun verið að hverfa aftur til gamla horfsins þar sem frádráttarliðir, eða svokölluð 5,3%, eru tekin og farið aftur í það kerfi sem var viðhaft, sem á að auðvelda uppboð tegunda og skipti í þennan litla pott sem svo má kalla. Ég held að þessi breyting sé til góða og rétt sé að fara aftur í það form sem var.

Í öðru lagi er þarna verið að tala um að heimila tilfærslu á viðmiðun aflareynslu og annarra réttinda er tengjast veiði milli fiskiskipa, þ.e. að þegar skip eru seld sé heimilt að taka aflaheimildir frá og selja skipið beint. Mig minnir að einu sinni hafi komið fram upplýsingar við smáumræðu sem átti sér stað og tekið var dæmi um að ef verið væri að selja tvö uppsjávarskip, sem hafa í raun og veru makrílheimildir og ef þetta hefði ekki verið í gildi, þá hefði þurft að selja viðkomandi skip með makrílheimildum. Menn hefðu hins vegar getað gert það öðruvísi, og það var oft og tíðum gert þannig eða hefði verið hægt að gera miðað við gildandi lög, og það er að selja skipin úr landi. Þá hefði makrílkvóti ekki verið seldur með og þess vegna verið hægt að kaupa skipin inn í landið degi seinna.

Ég held að þetta sé líka til bóta þannig að menn séu ekki með sniðgönguleiðir eða æfingar fram hjá lögum og reglum, þetta sé líka til góða hvað það varðar.

Í þriðja lagi er hér enn einu sinni verið að framlengja ákvæði um svokallaðan afla sem má vera á einni útgerð. Þetta hefur stundum verið kallað Stakkavíkurákvæðið. Í nefndinni voru færð rök fyrir því sem má fallast á enn einu sinni. Ég segi fyrir mitt leyti að ég held að það eigi alls ekki að framlengja þetta lengur. Það eigi að koma fram á hinu háa Alþingi að þetta sé algjör lokafrestur til 1. september 2016. Þetta snýst sem sagt um það að menn eru að fylla kvótaþakið í litla kerfinu og hefur yfirleitt verið kallað Stakkavíkurákvæðið.

Það má taka dæmi úr annarri atvinnugrein sem var um uppskipti hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Það þurftum við að framlengja, ef ég man rétt, tvisvar eða þrisvar út af svipaðri ástæðu og sett var þarna fram, þ.e. að verið væri að vinna í skuldamálum, eða lánamálum réttara sagt, hvað þetta varðar. Þess vegna ítreka ég það sem ég segi: Ég mun styðja þessa grein en í síðasta skipti. Ég held með öðrum orðum að það eigi að koma skýrt fram, eins og ég sagði áðan, að þetta ákvæði gildi ekki lengur. Nú verða menn að nota þann tíma sem þarna er gefinn til að uppfylla þau ákvæði laga sem eru um hámarkshludeild.

Síðan er þarna í lokin gerð enn ein breyting til að úthluta síld og makríl til smábáta. Talin var þörf á því að setja hana þarna fasta inn og má segja að með því að samþykkja þetta sé skotið lagastoð undir það að taka 2 þúsund lestir af makríl og auka við smábátaflotann úr 7.500 tonnum í kannski 9.500 tonn, en það úthlutast á ákveðinn hátt sem kemur fram í reglugerð um stjórn makrílveiða sem ráðherra hefur gefið út og er fyrir þetta fiskveiðiár.

Að síðustu sé ég að þarna er komið inn að upphæðin sem varðar greiðslu fyrir síldina er lækkuð úr 16 kr. í 8 kr. gagnvart smábátum. Ef ég man rétt lagði ráðuneytið til í fyrra meiri hækkun heldur en þarna var, nefndin féllst á 16 kr. en nú er sem sagt meiri hluti nefndarinnar að lækka það niður í 8 kr. Ég verð að segja alveg eins og er, þótt ég hafi taugar til smábáta og smábátaútgerðar, að 8 kr. er kannski fullnægjandi gjald og 16 kr. of mikið miðað við stöðuna, miðað við að þetta eru í raun og veru síldveiðar og sumir veiða þetta eingöngu fyrir sig í beitu, en mig vantar rökstuðninginn fyrir því hvers vegna gjaldið er lækkað. Ef hv. þingmaður sem mælir hér fyrir frumvarpi meiri hlutans er með svör á reiðum höndum hvað það varðar væru þau vel þegin inn í umræðuna.

Að lokum vil ég segja enn einu sinni að ástæðan fyrir því að ég er ekki einn af flutningsmönnum er sú að við í minni hlutanum töldum að best væri að meiri hlutinn afgreiddi öll þau mál sem hann var að vinna með. Ég tek þó fram að sumir þessara hluta eru þannig að ég lýsi yfir stuðningi við það hér við atkvæðagreiðsluna.