144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég mun greiða atkvæði með breytingartillögunni sem forðar því stórslysi að hverfisskipulagsákvæði falli út úr lögunum. Frumvarpið er hins vegar alveg ótrúlega illa úr garði gert og alveg sérstakt undrunarefni að sjálfskipaðir talsmenn einkaframtaks í landinu, sjálfstæðismenn, skuli geta greitt atkvæði með svo víðtækum inngriparétti ráðherra í almennan eignarrétt í landinu. Það er algerlega ótrúlegt að sjá það afturhvarf til ráðherraræðis sem er að finna í þessu frumvarpi þannig að jafnvel þó að fagmenn telji ekki ástæðu til friðunar svæða og byggða geti ráðherra samt ákveðið að leggja það fyrir Minjavernd að mæla fyrir um friðun. Það er alger öfugsnúningur frá þeim meginreglum sem við höfum verið að þróa íslenskt stjórnarfar í áttina að og alveg ótrúlegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn styðja svona mál.