144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:27]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í 78. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að sjálfsákvörðunarrétturinn sé hjá sveitarfélögunum nema annað sé ákveðið í lögum. Það er akkúrat það sem við erum að gera hér og nú. Við erum að ákveða með lögum hvort ráðherra geti haft eitthvað um það að segja hvernig megi vernda byggðaheildir eða húsaheildir og ég tel það vera jákvætt.

Á síðasta kjörtímabili var stigið sambærilegt skref þegar 7. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun var samþykkt, en þar verða sveitarfélög að laga sig að þeim ákvörðunum sem eru teknar á Alþingi.

Ég nefni þetta um leið og ég fagna frumvarpinu vegna þess að sú mýta hefur einhvern veginn verið á kreiki um að skipulagsvaldið sé heilög kýr og við því megi ekki hrófla.