144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er nú kannski svolítið lýsandi fyrir það ástand sem hefur verið ríkjandi hér á þingi að meira að segja á allan hátt jákvætt mál eins og þetta, sem snýst um að setja Ísland nokkurn veginn á sama stað og nágrannalöndin hafa verið áratugum saman í þessum málaflokki, að jafnvel slíkt mál geti orðið tilefni alls konar útúrsnúninga og upphrópana.

Hvað varðar aðkomu ráðherra, og það er nú rétt að ítreka það vegna þess að hv. þm. Árni Páll Árnason leit algerlega fram hjá því hér áðan að auðvitað snýr þetta verkefni fyrst og fremst að sveitarfélögunum, en hvað varðar aðkomu ráðherra sem hv. þingmaður og einhverjir fleiri hafa séð ofsjónum yfir, þá er hún algerlega í samræmi við það sem er í sambærilegum lögum, lögum um náttúruvernd, lögum um menningarminjar o.s.frv. og í samræmi við það sem er í þeim lögum sem hefur verið stuðst við og notast við í nágrannalöndunum, svoleiðis að þetta var ys og þys út af engu, raunar ys og þys út af einhverju sem er bara á allan hátt jákvætt.