144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ríkið hét stuðningi við uppbyggingu tiltekinna innviða og það var mikilvæg forsenda, ein af mikilvægum forsendum þess að þetta verkefni gæti orðið að veruleika. Ríkið hét því að leggja fram fjármuni og fara með sveitarfélaginu í framkvæmdir, hafnarbætur og tengingu hafnarinnar við iðnaðarsvæðið norðan Húsavíkurhöfða. Hér er um langtímafjárfestingu í innviðum að ræða, hafnarbætur og vegabætur, og ég tel að það sé ekki ósanngjarnt að ríkið leggi af mörkum til slíkrar framtíðar innviðauppbyggingar á svæði sem vonandi getur síðan á þeim grunni blómgast og dafnað.

Það eru vissulega vonbrigði að upphaflegt kostnaðarmat Vegagerðarinnar reyndist vanmat en að hluta til er líka á ferðinni uppfærsla til verðlags frá árinu 2012.

Ég styð þetta mál að sjálfsögðu, því að ég teldi skrýtið ef menn ætluðu að hverfa frá stuðningi við það og þar með kollvarpa því nú þegar það er komið af stað. Ég neyðist til að segja það, frú forseti, þótt mér leiðist sá samanburður, að ég velti því fyrir mér hvort menn væru að fara svona af hjörunum, sumir hverjir, ef þetta væri umframkostnaðar vegna svo sem eins og einna mislægra gatnamóta í Reykjavík. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)