144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi komið þarna að mjög mikilvægu atriði sem öll nefndin var einhuga um, og í henni sitja fulltrúar allra flokka á þingi, að það er alger lykilforsenda fyrir því að markmiðum frumvarpsins verði náð að þeim fjármunum sem kunna að renna í ríkissjóð við skattlagningu, eða við þessi stöðugleikaframlög eða önnur framlög, verði ráðstafað í samræmi við markmiðin um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Og eins og svarið frá skrifstofu opinberra fjármála hefur staðfest er eina skuldin sem hægt er að jafna um leið og fjármunir eru fyrir hendi 145 milljarða skuldabréf, eftirstöðvar skuldabréfs, í Seðlabankanum og sem veldur ekki neinu útflæði peninga út í hagkerfið. En það er alveg ljóst að tugir eða hundruð milljarða fara að streyma skyndilega út í hagkerfið ef ríkið fer að lækka skuldir sínar mjög hratt og greiða upp skuldir. Þegar ríkið greiðir skuldir í hagkerfinu þá fer laust fé í umferð og það getur leitt til verðbólgu, leitt til þrýstings á gengi, þ.e. fólk vill nota það lausafé til að kaupa gjaldeyri eða gera eitthvað annað eða eignabólu þar sem fólk notar peningana eða fjárfestar nota peningana til að fjárfesta í eignum sem fyrir eru. Allt eru þetta hlutir sem voru ræddir í þaula í nefndinni og einhugur var í nefndinni. Ég held að þetta þing muni alla vega bera gæfu til að fara gætilega og maður óskar þess að þingmenn framtíðarinnar muni gera það líka, því að hugsanlega er freistnivandi ef þessir sjóðir eru inni á reikningum. En mjög mikilvægt er að hafa í huga að gert er ráð fyrir því að öll slík ráðstöfun þessara fjármuna mun þurfa að verða kynnt fyrir Seðlabankanum og leita verði umsagna Seðlabankans á þessum áhrifum, hvort óhætt sé að nota þessa peninga, og þegar þar að kemur sem ég reikna nú frekar með að séu nokkur ár í en þó ekki áratugir eftir því hvert magnið er, þá má eiginlega segja að því meira af peningum sem kemur inn því lengur þarf að dreifa vandanum. Þess vegna er alveg sama hvað við fáum mikið inn af þessu, hvort það er lítið eða mikið, vandinn bara stækkar við að geyma það og freistnivandinn stækkar.