144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilni hans í svörum við mig. Mig langar til að spyrja hann: Hvora leiðina hefði hann sjálfur viljað fara? Hvora leiðina er hann öruggari með? Hv. þingmaður leggur eðlilega áherslu á að ekki hafi verið nokkrar samningaviðræður en samt segir hann að þetta byggi á hugmyndum stærstu kröfuhafanna. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér að átt hefðu sér stað samtöl við þá og þeir hefðu fengið að koma fram með sín viðhorf og þetta væri niðurstaðan eftir að á það hefði verið hlustað.

Fyrir mér er þetta ekkert annað en eins konar samningaviðræður sem fóru fram og þetta er niðurstaðan. Niðurstaðan er sem sagt sú að kröfuhafarnir sleppa kannski 400 milljörðum kr. billegar frá dæminu en ella af því að þeir fengu að semja. Gott og vel. Hv. þingmaður hefur viðrað áhyggjur af því ef bankarnir yrðu seldir til útlanda og það gæti leitt til þess að það mundi skapa þrýsting á stöðugleikann síðar. Þetta eru nákvæmlega sömu áhyggjur og Már Guðmundsson seðlabankastjóri viðraði mjög skýrt í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans 2013. Ég hef sömu áhyggjur.

Mér þykir það mjög óþægilegt en ég skil ekki alveg til hlítar þessi stöðugleikaskilyrði og hvernig bixinu öllu saman vindur fram. Eitt þykist ég þó sjá út úr þessu, þ.e. að inn í þá leið sem kröfuhafarnir ætla að fara, og þeir hafa lýst því yfir, er innbyggður hvati til að selja bankana úr landi, ég les það út úr þessu að þeir slyppu kannski 60–80 milljörðum kr. betur með því að selja bankana úr landi. Ég þarf ekki að segja hv. þingmanni til hvers það getur leitt þegar erlendir eigendur sem ætla kannski að eiga bankana í skamman tíma fara að hreinsa innan úr þeim. Þetta er raunveruleg hætta. Telur hv. þingmaður að það sé rétt að gefa það svigrúm sem þarna er sem byggir beinlínis á því að kröfuhöfum er þrýst á það að selja bankana úr landi?