144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir yfirferðina, þetta eru flókin mál. Ég vil jafnframt þakka nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Ég er nýr áheyrnarfulltrúi í nefndinni, kom inn af því að hv. þm. Jón Þór Ólafsson er að hætta á Alþingi eftir stuttan tíma og ég tel að nauðsynlegt sé að hafa heildræna sýn á málið því að þetta er að sjálfsögðu fyrsti leggur í stærra máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga. Sú fyrsta lýtur að forgangi kröfuhafa. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að hann telur efnahagsspá íslenskra stjórnvalda vera bjartsýna en að stjórnvöld taki ekki að fullu tillit til þeirrar áhættu sem Ísland stendur frammi fyrir á næstu árum. Í skýrslunni kemur einnig fram að AGS telur að afnám gjaldeyrishafta gagnvart Íslendingum geti tafist, jafnvel þó að komi til 39% skattur. Miðað við tillögu kröfuhafa er verið að tryggja þeim enn frekari aðgang að gjaldeyri en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir á meðan að íslensk heimili mæti afgangi.

Er ekki hætta á því, hv. þingmaður, að afnám gjaldeyrishafta á innlenda aðila tefjist, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áhyggjur af, að búið sé að tryggja kröfuhöfum útgöngu? Hafa kröfuhafar forgang?

Síðan langar mig að spyrja: Er rétt að ef bankarnir verða seldir á næsta ári muni erlendir kröfuhafar geta tekið tugi milljarða út úr hagkerfinu á meðan allt lífeyrissjóðakerfið getur einungis fjárfest erlendis fyrir 10 milljarða kr.? Telur hv. þingmaður að hér sé verið að gæta fulls jafnræðis milli innlendra aðila og kröfuhafa?