144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ef hún hefur áhuga á afstöðu minni í málinu tel ég auðvitað að það gangi ekki að hér séu höft á fjármagnsflutninga milli landa, hvorki á fyrirtæki, einstaklinga né erlenda aðila sem kjósa að koma hingað til lands og fjárfesta. Þau tvö mál sem hér hafa verið rædd í dag eru auðvitað liður í því að afnema höftin. Það er í rauninni ekki hægt að líta fram hjá þeirri röskun á efnahagslegum stöðugleika sem kynni að verða ef menn færu í einu vetfangi, erlendir aðilar, með eignir héðan úr landi í erlendum gjaldeyri. Ég tel tvímælalaust að næsta skref eigi að vera það að afnema höftin og veit ekki betur en það sé í bígerð. Þetta er liður í losun haftanna.

Hvað lífeyrissjóðina varðar tel ég alveg bráðnauðsynlegt að auka heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis. Það tengist náttúrlega hagsmunum almennings í landinu að menn setji ekki öll eggin í sömu körfu. Ég veit ekki betur en að verið sé að gera það, þ.e. að auka heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis. Ég tel reyndar ekki nóg að gert og hefði viljað ganga lengra og tel ekki útilokað að það verði gert í framhaldinu. En allt eru þetta skref í rétta átt þó alltaf megi ganga hraðar og lengra.