144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin. Miðað við tillögu kröfuhafa virðast innlendir aðilar þurfa að bjóða allt að tvöfalt hærra verð í bankann en erlendur kaupandi til að slitabúið komi jafn vel út. Það gerir innlendum aðilum ómögulegt að kaupa Íslandsbanka. Er það rétt að það sé nánast ómögulegt fyrir innlenda aðila að kaupa Íslandsbanka miðað við tillögu kröfuhafa?

Ég hef af því áhyggjur, þó svo að ég sé í sjálfu sér ekki á móti því að hafa blandaða leið í því hverjir eiga bankana, en ég held að mjög brýnt sé að faglega sé að því staðið, sem því miður misfórst þegar bankarnir voru einkavæddir.

Síðan langar mig að spyrja, það er eitt sem er búið að bögga mig mjög mikið í þessari vinnu að ég hef ekki séð þessi stöðugleikaskilyrði. Þau hafa verið rædd og tíndir upp stöðugleikaskilyrðagrunnarnir, en hvorki stjórnvöld né Seðlabankinn hafa lagt þessi skilyrði fram fyrir Alþingi eða efnahagslega greiningu á þeim þó svo að þessi sömu skilyrði hafi þegar verið kynnt kröfuhöfum. Mér finnst mjög mikilvægt að við förum í þessar aðgerðir, mér finnst mjög óþægilegt hvað þetta fer hratt í gegn einfaldlega af því að mér finnst sem við höfum ekki allar upplýsingar, en það er kannski bara minn akkillesarhæll að mér finnst óþægilegt að taka ákvarðanir blindandi.

Mig langar að spyrja hvað hv. þingmanni finnist um það að við höfum ekki öll gögn sem mér finnst nauðsynlegt að hafa til að taka svona rosalega stórar ákvarðanir, eins og t.d. stöðugleikaskilyrðin. Þó að það sé ekki grundvallarmál er það samt mjög mikilvægur hlekkur í að hafa yfirsýn.