144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég hef kosið að orða það svo að maður hafi ástæðu til að ætla það. Maður getur eiginlega ekki annað ráðið af því að lesa í það sem gerðist á kynningardegi frumvarpanna á Hörpudaginn að strax þann dag skyldu koma inn bréf frá öllum stóru búunum og jafnframt upplýst að verkefnisstjórnin væri búin að fara yfir þau tilboð og mæti þau fullnægjandi, en að málið sé miklu þroskaðra en menn hafa almennilega viljað gangast við jafnvel allt fram á þennan dag. Ég leyfi mér því að líta svo á eða spyrja: Er þetta þá ekki orðið einhvers konar óformlegt samkomulag? Ekki þannig að ekki verði aftur snúið, þökk sé því að það er Seðlabankinn sem hefur síðasta orðið. Hann getur í fyrsta lagi metið hvort stöðugleikasamningarnir og stöðuleikaframlögin séu fullnægjandi og svo er það hann sem þarf að veita undanþáguna. Þá verða líka ráðherra og efnahags- og viðskiptanefnd koma að því.

Ekki er komið á neitt bindandi samkomulag þannig að ekki verði aftur snúið. En ég reikna með að lykilkröfuhafarnir sem samskiptin voru við líti svo á að komið sé að minnsta kosti eitthvað sem menn mundu kalla „gentlemen's agreement“. Það er ansi hætt við því að þeir líti á að það sé „goodwill-staða“ í málinu að þessu leyti og gætu orðið súrir ef ætti að hrófla því mikið til.

Hvaða svigrúm Seðlabankinn hefur til að gera frekari kröfur o.s.frv. er auðvitað erfitt að meta fyrr en á reynir.

Í öðru lagi: Ráðstöfun fjármunanna? Já, ég tel að vegna þess að menn hafi nánast ekki getað bent á eina einustu aðra ráðstöfun fjármunanna sem ekki er vandasöm en þá að greiða upp seðlabankabréfið lít ég svo á að allar aðrar útfærslur þyrftu að fara í þennan farveg í samráði við Seðlabankann og þingmenn.

Já, ég mæli með því að hv. þingmaður segi já, ekki vegna þess að ég hafi ekki líka mínar efasemdir um stöðugleikaframlögin, eins og ég viðraði í máli mínu. En þrátt fyrir allt eru málin tvö samhangandi og hluti af einni heild og það er eiginlega ekki síður af þeim ástæðum sem ég tel að maður (Forseti hringir.) verði að taka afstöðu til alls pakkans.