144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það er nú þannig, frú forseti, að ég hef alltaf tamið mér háttsemi Tómasar, ég hef viljað leggja höndina í sárið til að geta trúað. Ég tek ekki svona hlutum sem að mér er rétt og ég segi það alveg eins og er að mér líður ekki vel yfir því að þetta mál, sem er hugsanlega stærsta málið sem margir þingmenn munu nokkru sinni standa andspænis, fari hér í gegnum þingið á hálfum mánuði. Margt er mjög óljóst í málinu. Við þingmannsræflarnir sem sitjum hérna úti í sal eigum engan kost annan en þann að hlíta leiðsögn þeirra örfáu sem sitja fyrir okkar hönd í efnahags- og viðskiptanefnd. Sem betur fer hefur nefndin komist að sameiginlegri niðurstöðu þannig að manni líður svolítið betur með það.

Ég get sagt það hér og nú að ég skil forsendurnar fyrir stöðugleikaskattinum og styð hann. Ég hef miklu meiri efasemdir um stöðugleikaskilyrðin. Af hverju? Vegna þess að ég veit ekki hver þau eru. Ég rifja það upp að við slógumst hér heiftarlega um þriggja ára skeið um annan samning þar sem barið var á mönnum fyrir að koma ekki fram með skilyrði á bak við samninginn, og þau voru lögð fram. Af hverju er ekki hægt að gera það í þessu máli? Af hverju þarf að vefja þetta einhverri móðu og skuggum? Af hverju er ekki bara sagt frá þessum hlutum eins og þeir eru? Vitaskuld er þetta samningur. Þetta teiknar sig allt upp til þess að búið sé að ganga frá samningi og okkur hefur ekki verið greint frá því að gefnir séu fyrirvarar um samþykki þingsins og allt bendir til að ekkert reyni á það.

Varðandi síðan ráðstöfun fjárins, hv. þingmaður lýsti því að við hefðum sameiginlegan skilning. Hægt er að nota peningana til að núlla út bréfið, ekkert umfram það án þess að komi til kasta nefndarinnar og þar með þingsins. En þá spyr ég hv. þingmann: Ef ekki má eyða þessu fé nema á mjög löngum tíma, af hverju tökum við það þá ekki og tökum sameiginlega ákvörðun um að setja það í sérstakan sjóð, svipaðan norska olíusjóðnum, og geyma það til framtíðar, láta það ávaxta sig? Þá geta komandi kynslóðir notið góðs af þeim ávinningi.