144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það fór þó aldrei svo að ég tæki ekki til máls á þessu þingi undir liðnum um fundarstjórn forseta (Gripið fram í: Málþóf.) og geri það nú af illri nauðsyn. Í framsöguræðu minni fyrr í dag um nefndarálit meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd í málinu er lýtur að nauðasamningum slitabúa nefndi ég í tengslum við þá breytingartillögu sem nefndin gerði við c-lið 1. gr. sem lýtur að heimild, nefndin leggur til heimild til lántöku til handa slitabúunum. Ég nefndi það hins vegar að ef fjármálafyrirtæki í slitameðferð fer með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki gildir 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki um slíkar lánveitingar. Um leið áréttaði ég einnig að lánveitingarnar gætu fallið undir reglur laga um gjaldeyrismál og ný lagaheimild felur ekki í sér undantekningu frá lögum um gjaldeyrismál.

Einhverra hluta vegna er þetta (Forseti hringir.) ekki tekið fram í nefndarálitinu sjálfu, en ég mun óska eftir því að þessari áréttingu verði bætt inn í nefndarálitið með þeim hætti sem Alþingi heimilar að prenta upp nefndarálitið. Ég vildi láta þessa getið hér undir þessum lið.