144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans. Þá vil ég jafnframt byrja á því áður en ég varpa fram spurningu að þakka hv. framsögumönnum og þingmönnum, í fyrsta lagi hv. þm. og formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Frosta Sigurjónssyni, fyrir framsögu hans og hv. þm. Sigríði Á. Andersen sem mælti fyrir nefndaráliti um frumvarp um fjármálafyrirtæki sem lýtur að nauðasamningum og einnig hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir framsögu hans, en öll eiga þau sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég vil þakka þeim öllum fyrir samstarfið í nefndinni og fyrir þá samstöðu sem var virkilega í nefndinni eins og komið hefur fram hér í máli hv. þingmanna.

Hv. þm. Árni Páll Árnason fór mjög vel yfir forsögu málsins en hann og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon standa saman að ítarlegu áliti, það er kallað álit minni hluta en er auðvitað sameiginlega með nefndinni að málinu í heild. Hann fór vel yfir bæði tímalínu og forsögu enda átti hv. þingmaður sæti í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og þekkir þróun þessa máls. Hv. þingmaður fór vel yfir þau markmið um að hér verði efnahagslegum stöðugleika ekki ógnað og jafnframt er gerð góð grein fyrir því í þessu ítarlega áliti minni hluta hér sem fylgir.

Ég vil spyrja hv. þingmann varðandi þann lagalega umbúnað sem hann kom inn á, hvort hann sé ekki nægur til að tryggja að þessum markmiðum verði náð.