144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem snýr að því að tryggja stöðugleika. Ég sagði að það væri mikilvægt í framhaldinu að við gerðum allt til þess að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagi. Það á við um þessa umræðu, fjárlagaumræðu, skattaumræðu og alla umræðu sem snýr að þessu, vegna þess að stöðugleikinn er það sem skiptir öllu máli.

Ég þykist vita að ætli menn sér á einhverjum tímapunkti að nýta þessa fjármuni með einhverjum hætti, eða hvernig sem það verður, þá verður alltaf horft til stöðugleikans vegna þess að hann er það sem skiptir mestu máli. Það kemur meðal annars fram í þessum málum og nefndin hefur styrkt það enn frekar.

Varðandi gjaldeyrishöftin, Evrópusambandsmálið og evruna, þá kom það ítrekað fram á síðasta kjörtímabili fyrst og fremst hjá Samfylkingunni og þingmönnum hennar og þáverandi ráðherrum að ekki væri hægt að afnema gjaldeyrishöft nema taka upp evru. Ef þjóðin vildi afnema gjaldeyrishöft yrðum við að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það liggur víða fyrir í greinum, í viðtölum, í þingræðum o.s.frv. En nú er það svo að annað land, Grikkland, sem er með evru er komið í gjaldeyrishöft. En vegna þess að við erum sjálfstæð þjóð og vegna þess að við höfum lagasetningarvaldið að meiri hluta, sterkari hluta en lönd eins og Grikkland, og við höfum skattlagningarvaldið og við höfum sjálfstæðan seðlabanka, sem Grikkland hefur ekki, getum við gengið miklu ákveðnar fram. Og ef menn þora og hafa kjark til þess og þjóðin stendur saman um að beita þeim mikilvægu þáttum sem við höfum sem þjóð þá getum við náð árangri. Það er það sem við erum að ná fram hér í dag. Því var ég að fagna, og sérstaklega því að þingmenn allra flokka eru nokkuð sammála um að við getum náð þeim árangri (Forseti hringir.) í krafti sjálfstæðs gjaldmiðils, sjálfstæðs seðlabanka og óskerts lagasetningarvalds.