144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður nú að fara rétt með. Ekki í einu einasta tilviki sögðu þingmenn Samfylkingarinnar eða ráðherrar hennar á síðasta kjörtímabili að ekki væri hægt að leysa úr greiðsluflæðisvanda vegna föllnu bankanna öðruvísi en að ganga í Evrópusambandið, bara aldrei nokkurn tímann. Það sem við höfum sagt er sú staðreynd sem blasir við enn þann dag í dag, að jafnvel þó að úr þessum vanda verði leyst og öllum öðrum vanda, verður krónan áfram í ákveðinni tegund af höftum. Um það er samstaða í dag milli Seðlabankans og fjármálaráðherrans og báðir aðilar tala um að þetta muni heita hraðahindranir og þjóðhagsvarúðarreglur og eitthvað slíkt, en þetta eru auðvitað hindranir á frjálsu fjármagnsstreymi. Það er það sem þingmenn Samfylkingarinnar og ráðherrar hennar sögðu á síðasta kjörtímabili og það er satt enn þann dag í dag. Seðlabankinn hefur ekki breytt um stefnu í því efni og ekki heldur ríkisstjórn hv. þingmanns. Hv. þingmaður á því ekki að reyna að búa til einhvern hálfsannleik úr orðum okkar hér á síðasta kjörtímabili og það er algjör óþarfi fyrir hann að vera að spilla andrúmsloftinu á þessari góðu samkomu í umræðu um þetta ágæta mál með svona galgopahætti.

Hvað varðar hins vegar stöðuna í Grikklandi og stöðuna innan Evrópu er það þannig að fjármálaáfallið 2008 og úrlausn þess hefur reynt á mjög víða í Evrópu. En það er alls ekki þannig að evran hafi alls staðar verið bölvaldur, þvert á móti hefur hún verið forsenda endurreisnar í fjöldamörgum löndum sem náð hafa jafnvel hraðari viðspyrnu en við, sem hefur þó gengið ágætlega. Þar hefur tekist að snúa stöðunni við með minni kaupmáttarskerðingu víða en hér varð. Og það er nú ekki eins og enn þá sé beinlínis friðvænlegt um að litast hér og ekki er fólk sátt, hvorki við hækkun verðtryggðu lánanna sinna né heldur skerðingu launa sinna sem leiddu af falli íslensku krónunnar.

Við eigum eftir að horfa á það í heild sinni þegar rykið sest. (Forseti hringir.) Staðreyndin er nú sú að við getum vissulega gripið til ýmissa (Forseti hringir.) aðgerða í krafti sjálfstæðs gjaldmiðils, en við erum líka ofurseld ýmsum öðrum vandamálum vegna smás gjaldmiðils.