144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það fer hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni mjög vel að koma hingað í gervi veisluspillis og sannarlega held ég að þörf sé á því að hleypa upp þessu góða partíi um stöðugleikaskatt Framsóknarflokksins. Það er hins vegar alrangt sem hv. þingmaður segir að þingmenn Samfylkingarinnar hafi sagt að ekki væri hægt að aflétta gjaldeyrishöftum án þess að ganga í Evrópusambandið. Þarna misskilur hv. þingmaður í grundvallaratriðum hvað þarf að gerast til þess að þjóð geti gengið í Evrópusambandið. Eitt af því sem þarf að gerast er til dæmis að tryggt sé frjálst fjármagnsflæði. Þess vegna var ein af forsendunum fyrir því að við gætum gengið í Evrópusambandið sú að búið væri að leysa þau vandamál sem stöfuðu af fjármagnshöftunum, búið væri að leysa þau upp og ganga frá krónueigninni. Þetta hélt ég að hv. þingmaður vissi vegna þess að þetta er grundvallaratriði. Án þess hefðum við ekki getað gengið í ERM II og þar af leiðandi ekki tekið upp evruna. Þetta þarf að liggja algjörlega skýrt fyrir.

Hins vegar er ég hissa á tóninum í ræðu hv. þingmanns að vera svona hrifinn af því að fara þá leið sem við erum að fara hér, því að hún er þvert á það sem Framsóknarflokkurinn hefur sagt. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf sagt að hagsmunir Íslands yrðu varðir til hins ýtrasta. Nú hefur það komið mjög skýrt fram í þessari umræðu að stöðugleikaskatturinn er skýr og engin áhætta að fara hann, en hins vegar hefur verið sýnt fram á og tekið undir það, m.a. hjá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, að ákveðin óvissa ríkir um það að fara leið stöðugleikaframlaganna. Hvernig stendur á því að Framsóknarflokkurinn fer hana? Hvernig stendur á því að Framsóknarflokkurinn sem ætlaði að þjarma að kröfuhöfunum gefur þeim afslátt upp á 400 milljarða? Það er raunar hægt að sýna fram á að við tilteknar aðstæður er það nær 500 milljörðum. Hvernig stendur á því að Framsóknarflokkurinn og hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur (Gripið fram í.) forustu um það að ganga lengst í því að friðþægja gagnvart kröfuhöfum? Þetta er mesti skattafsláttur (Forseti hringir.) Íslandssögunnar. (Gripið fram í.) Hvernig samrýmist þetta við orð Framsóknarflokksins og hv. þingmanns? (Gripið fram í: 50 prósent.)