144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég lít á mig sem gagnrýnanda í þessum hópi, hér gagnrýnir þetta enginn, meira að segja hv. þm. Frosti Sigurjónsson er farinn að umfaðma þetta, mér finnst hann vera að tapa röntgengljáa gleraugna sinna. Hv. þingmaður á að reyna að standast þá freistingu að nota harm Grikkja sem svipu til þess að láta ríða um mín herðablöð. Samúð okkar allra er með þeim. Hins vegar voru Grikkir vonum seinna búnir að setja fjármagnshöft. Það er skammt síðan annað ríki innan Evrópusambandsins lenti í krísu og setti fjármagnshöft, en er búið að aflétta þeim.

En, frú forseti, hv. þingmaður reyndi í lengstu lög að eyða tíma sínum í annað en að svara þessari spurningu: Af hverju gekk Framsóknarflokkurinn ekki fram með ýtrasta móti núna? Það liggur fyrir eftir þessa umræðu að stöðugleikaskatturinn slær algjörlega varnarhring utan um hagsmuni Íslands. En það er óvissa sem ríkir varðandi hina leiðina. Það hefði verið hægt að fara hana. Það var leiðin sem hæstv. forsætisráðherra notaði til þess að berja sér á brjóst á flokksþingi Framsóknarflokksins þegar hann kom og baðaði sig í hetjuljóma og sagði að nú ætlaði hann að nota kylfuna. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson kallaði það einu sinni haglabyssu. Hvernig er staðan núna? Ótrúleg eftirgjöf gagnvart kröfuhöfum.

Það hefur komið fram í umræðunni að þeir koma með hugmyndirnar og það eru meira að segja þeir sem hafa ýtt íslensku ríkisstjórninni í þá stöðu með samtölum að hún afsalar sér möguleikum á 400 milljörðum. Þetta er liðið sem ætlaði að taka á kröfuhöfum. Það liggur þá eftir þessa umræðu að afslátturinn sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason lofsyngur hér í dag gagnvart kröfuhöfum er fimm sinnum meiri en sú upphæð sem notuð var til að minnka höfuðstól skuldara. Það er algjörlega ljóst hvað er í fyrirrúmi. Framsóknarflokkurinn hefur greinilega lagt meiri áherslu (Forseti hringir.) á hagsmuni kröfuhafa en venjulegra Íslendinga sem skulda vegna húsnæðis síns.