144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér kemur svolítið á óvart miðað við þá þekkingu sem hv. þingmaður hefur af Framsóknarflokknum hversu lítt hann gat upplýst mig um það sem er rannsóknarefni: Hvað olli þessum sinnaskiptum Framsóknarflokksins? Mér finnst það vera rannsóknarefni eftir að Framsóknarflokkurinn hefur gengið lengst allra í því að saka aðra um það að ganga erinda kröfuhafa, ganga linkulega fram við kröfuhafa. Við hlustuðum á það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði áðan og þá allt í einu þegar búið er að leggja fram hugmyndir um stöðugleikaskattinn, þegar forsætisráðherra er búinn að halda mikla ræðu um það á flokksþingi Framsóknar og búið er að kynna hann á sérstökum hátíðarfundi í Hörpu, kemur í ljós að það er allt önnur leið líka í boði. Í boði Framsóknarflokksins eiga kröfuhafarnir kost á því að sleppa miklu billegar, þeir eiga kost á því að komast frá málinu með 400 milljörðum minna.

Má ég upplýsa hv. þingmann sem hefur verið önnum kafinn síðustu daga um það að í einu dagblaðanna birtist fréttaskýring eftir einn af þeim fréttamönnum sem hvað mesta innsýn hafa í heim kröfuhafanna og hann sagði: Í hópi kröfuhafanna hefur þetta kallað fram hugarástand sem hann kallaði ofsagleði. Fréttamaðurinn spurði: Hvað veldur þessari ofsagleði kröfuhafanna? Hann sagði að það vekti ugg hjá sér og hann spurði þessarar retorísku spurningar: Getur verið að íslenska ríkisstjórnin hafi samið af sér? Ekki ætla ég að svara því en þetta eru pælingarnar.

Ég las hér í dag upp frétt frá Bloomberg þar sem yfir sig glaður nafngreindur kröfuhafi var himinlifandi yfir því að þeir þyrftu bara að borga 2,75 milljarða bandaríkjadala í staðinn fyrir 5,1. Er nema von að maður spyrji: Hvernig stendur á því að Framsóknarflokkurinn lét af þeirri stefnu að ná fram ýtrustu markmiðum sínum gagnvart kröfuhöfum?