144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:50]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er margt sem er náttúrlega órætt og óljóst í þessu máli og þá horfi ég t.d. til innbyggðs ákvæðis í þessu máli að bankarnir verði seldir úr landi. Það liggur í þessum skilyrðum að líklegt sé að svo gerist. Og ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann sagði í ræðu sinni eða andsvari fyrr í dag að hann hugsaði með hryllingi til þess að óprúttnir erlendir aðilar kæmust yfir íslensku bankana einvörðungu til að hreinsa innan úr þeim og þetta væri varla í þjóðarhag. Ég minnist þess að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur einnig tekið í sama streng, hann óttast þessa þróun.

En varðandi ofsagleðina, ég þekki hana ekki vel en hv. þingmaður vísaði þar í fjölmiðla. Það sem stingur mig í þessu máli er ógagnsæið, að menn séu tilbúnir að samþykkja hér frumvarp og þar er ég ekki að tala um stöðugleikaskattinn, sem er eins ógagnsætt og þessar leiðir eru. Þarna er að finna margt sem á að fara leynt og við eigum bara ekki að sætta okkur við það. Þess vegna get ég ekki stutt þá hjáleið sem hér er boðuð.

(Forseti (KLM): Forseti vill taka það fram að hann lítur svo á að þinghald geti staðið lengur en þingsköp kveða á um til að ljúka umræðunni.)