144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[20:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni enn á ný fyrir hans ræðu. Ég ætla ekki að eiga hér í löngum orðaskiptum við hv. þingmann, ég ætla þó að minna á eitt, rifja eitt upp fyrir hv. þingmanni sem mér er mjög minnisstætt af því að hér var vitnað til Icesave og fleiri þátta. Mér er mjög minnisstætt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem barðist hvað harðast fyrir samþykkt Icesave-samninganna á sínum tíma var fyrsti maðurinn til þess að koma í fjölmiðla sem ég sá til þess að fagna því að forsetinn hefði vísað þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hv. þingmaður hefur því í þessum málum verið mjög snöggur að skipta um skoðun og leita að pólitískri leið sem til vinsælda er fallin hverju sinni.

Mig langar að vitna í það sem kemur fram hjá Ólafi Elíassyni, einum af Indefence-mönnum í dag, með leyfi virðulegs forseta:

„Indefence-hópurinn hvetur Össur og aðra sem fjalla um málið að falla ekki í þá gryfju að gera eitt mikilvægasta mál sem þjóðin hefur þurft að glíma við að pólitískum leðjuslag.“

Fyrirsögnin á þessum bloggpistli sem skrifaður er í dag er Misskilningur Össurar.

Ég vil að lokum fagna því að um þetta mál ríkir breið samstaða hér í þingsal vegna þess að það er mikilvægt fyrir málið sjálft. Ég trúi því að sú niðurstaða sem við erum með hérna sé mjög góð, og ég fagna því að hv. þingmaður deilir þeirri skoðun og að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gera það almennt, og ég trúi því að það sé mikilvægt að þingheimur standi saman þegar við afgreiðum þetta frumvarp á morgun til þess að verja stöðugleika í íslensku samfélagi gagnvart samningum við kröfuhafana. Ég trúi því að það sé mikilvægt að um það náist breið samstaða og við skulum halda umræðunni á þeim stað.