144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[20:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur margoft fram í ræðum mínum að ég er biblíufastur, en ég er gamlatestamentismaður. Ég tel að þegar menn eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason koma og reiða hönd til höggs gagnvart mér þá hljóti hann að gera ráð fyrir því að ég verji mig.

Ég ætlaði ekki að koma hér upp til þess að tala um fortíðina, ég geri afskaplega lítið af því nú um stundir, ég er framtíðarmaður og bjartsýnn eins og hv. þingmaður. En fortíðin var tilefni ræðu hv. þingmanns hér fyrr í dag. Og hann verður að læra það, ef ekki með góðu þá með illu, að hann kemur ekki hér upp og fer að tala um það að ég hafi tekið þátt í einhverju sem má kalla landráð án þess að hann fái þá gólftusku óþvegna til baka. Og ef það er eitthvað sem ég hef lært af reynslunni er að ef menn haga sér illa þá á að tyfta þá.

Ég skil hins vegar ákaflega vel að hv. þingmaður skammist sín fyrir það með hvaða hætti Framsóknarflokkurinn hefur algjörlega horfið frá því sem hann var alltaf að tala um, það eru reyndar ekki nema sex vikur síðan forsætisráðherrann talaði um að það ætti að taka á kröfuhöfum. Jú, heldur betur er búið að taka á þeim. Hæstv. forsætisráðherra, væntanlega með aðstoð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, hefur dregið á sig mýkstu silkihanskana í glímunni við kröfuhafana, maðurinn sem ætlaði að nota kylfuna, haglabyssuna og hvað þetta var nú allt saman leysir þá í reynd úr prísundinni, gefur þeim tækifæri á að sleppa með 400 milljarða eftirgjöf. Er það nema von að á Bloomberg séu fréttir af mönnum sem ráða sér ekki fyrir kæti? Það smitar inn í íslenska fjölmiðla.

Staðreyndin er að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefði getað gengið frá þessu máli og flokkur hans með þeim hætti að staða Íslands gagnvart gjaldeyrishöftunum og afnámi þeirra væri algjörlega trygg og íslenski ríkissjóðurinn hefði fengið 400 (Forseti hringir.) milljörðum meira. Vissulega getur hann ekki notað þá núna en hann gæti notað þá einhvern tíma í framtíðinni.