144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[20:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að segja aftur það sem ég sagði áðan, ég tel að hér séum við að ná mjög góðri niðurstöðu og ég er ánægður með að þingheimur samkvæmt umræðunum í dag er sammála ríkisstjórninni hvað það snertir. Við erum að verja stöðugleika í íslensku samfélagi með þessum frumvörpum. Og ég vil segja að það er mikilvægt að sú samstaða haldi og ég vil líka segja að við skulum forðast það sem Ólafur Elíasson, einn fulltrúi Indefence-hópsins, kallaði í dag afvegaleiðingu umræðunnar. Við skulum forðast að afvegaleiða umræðuna og ég hlakka til að afgreiða þessi mál á morgun vegna þess að eins og ég sagði í minni ræðu fyrr í dag, sem ég veit að hv. þingmaður hlustaði á, þá er þetta ekki eitt mikilvægasta mál bara þessa þings, þetta er mikilvægasta mál kjörtímabilsins.