144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Álagning stöðugleikaskattsins er tiltölulega einföld aðgerð í skattatæknilegum skilningi. Um er að ræða einskiptis 39% eignarskatt á allar eignir búa fallinna fjármálafyrirtækja, sem tekinn yrði miðað við eignastöðu þeirra í árslok þessa árs. Í lagalegum skilningi er rökstuðningur eða réttlæting skattsins það vandasama. Það er mitt mat að það sé vel gert í greinargerð með frumvarpinu og skatturinn fyllilega réttlætanlegur og standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Breytingartillögur efnahags- og viðskiptanefndar eru til bóta, ekki síst það að styrkja enn betur umgjörðina um meðferð þeirra fjármuna sem skatturinn kynni að skila og þar á meðal að um það sé þverpólitískt samstarf.

Hins vegar er málið í sjálfu sér fyrst og fremst fræðilegs eðlis því að það eru litlar líkur á að til greiðslu þessa skatts komi þar sem fyrir virðist liggja einhvers konar óformlegt samkomulag milli ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og lykilkröfuhafa í bú stóru bankanna. Það er því ekki líklegt að þessi leið muni skila ríkissjóði miklum fjármunum.