144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég kýs að tala í sömu andrá um þetta frumvarp og hið næsta sem við greiðum atkvæði um, um nauðasamninga. Þetta eru góð mál að mati okkar í Bjartri framtíð. Hér er verið að nálgast vandamálið með skynsamlegum hætti. Vinna nefndarinnar hefur verið góð.

Það er mjög mikilvægt að það sé alveg á hreinu að þetta eru ekki tekjuöflunarfrumvörp. Frumvarpið sem við greiðum atkvæði um nú og hið næsta eru frumvörp til þess að reyna að komast yfir verulegan hjalla í áttina að losun hafta til að eyða ógn við stöðugleika og lífskjör almennings með því að koma peningum sem eru þarna úti úr umferð. Það verður að takast.

Það er of snemmt að fagna, verkefnið er að hefjast núna. Ef þetta tekst vel þá vil ég leyfa mér að spá því að það muni blasa við okkur kunnuglegur veruleiki þar sem við þurfum að horfast í augu við að við erum með of lítinn gjaldmiðil til þess að höndla (Forseti hringir.) fjármagnsflutninga, til þess að höndla frelsið í fjármagnsflutningum og til þess að höndla uppgang og (Forseti hringir.) góðæri. Ég hvet til þess í framhaldinu að við mundum ræða framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar.