144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil byrja á því nú við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. að þakka nefndinni fyrir vel unnin störf, fyrir samstöðu hér í þinginu um að málið fái framgang. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það var mikið lagt á þingið að fara fram á að þetta stórt mál kæmist í gegnum nefndarstarf og lokið yrði við þrjár umræður á skömmum tíma eins og er að takast.

Hér hefur mikið verið rætt um ráðstöfun þeirra fjármuna sem koma til með að birtast annaðhvort í formi skattgreiðslna eða stöðugleikaframlags, en það er skýrt samkvæmt frumvörpum sem fylgja þessu máli að þeim ber að ráðstafa til þess að lækka skuldir ríkissjóðs og koma í veg fyrir þensluáhrif. Það eru engir samningar við einn eða neinn á bak við tjöldin. Þetta er einfaldlega skýrt mál og það mun áfram verða unnið að því að greiða fyrir leið nauðasamninga með stöðugleikaskilyrðum. Verði þau ekki uppfyllt þá fellur skatturinn í lok þessa árs á viðkomandi slitabú. Aðalatriði málsins er það að hér kemur fram heildstæð áætlun um það hvernig á að (Forseti hringir.) leysa vandann. Og það er mjög mikilvægt fyrir íslenska þjóð að finna fyrir þeirri samstöðu sem er hér á þinginu um aðferðafræðina við að ná því markmiði.