144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ramminn sem kominn er með þessari málsgrein, að breytingartillögunni samþykktri, utan um meðferð fjármuna, og skiptir þá ekki máli hvort þeir koma í formi stöðugleikaskatts eða stöðugleikaskilyrða því vísað er til þessarar greinar í því frumvarpi, er á þá leið að ráðstöfun fjárins skal í fyrsta lagi samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Í öðru lagi skal gera sérstaklega grein fyrir meðferð fjármunanna í fjárlögum, standi hún til, að undangengnu samráði við Seðlabanka Íslands um mat á áhrifum þess á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og samráði við efnahags- og viðskiptanefnd. Ásamt með því sem segir um þetta í lögskýringum í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar þá held ég að búið sé að reyna að búa um þetta með eins tryggilegum hætti og kostur er og málið í framhaldinu í höndum þeirra stjórnmálamanna sem með þetta fara og vonandi standast þeir prófið.