144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

fjármálafyrirtæki.

787. mál
[10:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um margháttaðar breytingar á reglum um nauðasamninga til þess að greiða fyrir því að fyrirtæki geti lokið málum með greiðslu stöðugleikaframlags en ekki greiðslu stöðugleikaskatts. Það felst mikill munur í þeirri aðferðafræði. Í staðinn fyrir skatt sem yrði lagður á og mundi renna í ríkissjóð upp á einhvers staðar á bilinu 680–800 milljarða þá er um að ræða framlag frá þrotabúunum upp á einhvers staðar rétt rúmlega 300 milljarða samkvæmt þessari aðferð og síðan viðbótarframlög, sem fela í sér lengingu á gjaldeyrislánum til bankanna og endurgreiðslu þeirra gjaldeyrislána sem Seðlabankinn hefur þegar veitt þrotabúunum og svo mætti lengi telja.

Með öðrum orðum, það er mikill efnislegur munur á þeim verðmætum sem renna í ríkissjóð til lausnar vandans milli þessara tveggja leiða. Við verðum við þessa atkvæðagreiðslu að treysta því sem lagt er upp með af hálfu ríkisstjórnarinnar um að þessir samningaleið sé (Forseti hringir.) fullnægjandi og tryggi með fullnægjandi hætti hagsmuni þjóðarinnar. Við munum greiða atkvæði með þessu, en ég vildi orða þennan fyrirvara hér.