144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

fjármálafyrirtæki.

787. mál
[10:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að frumvarp um stöðugleikaskatt var samþykkt með nær öllum atkvæðum.

Þegar kemur að þessu síðara frumvarpi sem snýst um stöðugleikaframlag þá er mjög mikilvægt að hafa í huga og árétta það hér að þegar og ef farið verður í samninga um stöðugleikaframlag skal í engu ganga á gjaldeyrisforða eða lífskjör þjóðarinnar og jafnframt skal það vera með þeim hætti að þetta skal fyrst fara í gegnum Seðlabanka, svo gegnum fjármálaráðherra og ríkisstjórn, og svo er það áréttað hér og um það hefur verið þverpólitísk samstaða að það skuli fara í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd. Þar með er þingið að áskilja sér ákveðinn rétt til þess að hafa eftirlit með þessu máli á hvaða stigi sem er vegna þess að þessi leið er bæði valkvæð og tímabundin. Fari svo að einhver af þessum þremur aðilum, Seðlabanki, ríkisstjórn og fjármálaráðherra eða efnahags- og viðskiptanefnd, meti það svo að í einhverju sé gengið á lífsgæði eða gjaldeyrisforða þá munu kröfuhafar fara stöðugleikaskattsleiðina og greiða 39%. Það er mikilvægt að þetta komi fram hér og sé skjalfest.