144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

fjármálafyrirtæki.

787. mál
[10:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um seinna frumvarpið í þessu stóra og mikla máli þar sem mjög mikilvægt er fyrir þjóðarhagsmuni að breið pólitísk samstaða myndist hér á Alþingi um þessi tvö mál. Ég studdi málið áðan og ég styð þetta mál sem hér er, en vil segja þetta hvað varðar fyrirvara: Það er mikill munur á þessum tveimur leiðum sem farnar eru. Ef leiðin verður farin sem við erum að greiða hér atkvæði um núna, þ.e. stöðugleikaframlag, þá sýnist mér að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi framkvæmt mestu skuldaleiðréttingu Íslandssögunnar. Þá er fallið heimsmetið sem átti að vera fyrir heimilin í landinu en varð að litlu hreppameti.

Ef þessi leið verður farin, virðulegi forseti, þá þýðir það að um 400 milljörðum minna kemur í ríkissjóð vegna þessara leiða, vegna þeirra samninga sem birtir voru á heimasíðu fjármálaráðuneytisins rétt eftir að fundinum lauk í Hörpu, (Forseti hringir.) sýningarfundinum með öllum glærunum sem þar voru. (Gripið fram í.)Þetta er skuldaleiðrétting ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við kröfuhafa hinna föllnu banka. (Gripið fram í.)