144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[10:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef verið mjög duglegur að mæta þegar kemur að makrílmálinu út af því að það er mál sem landsmenn vilja fá að koma að og hófu undirskriftasöfnun um. Grunnstefna Pírata er mitt umboð. Hún gengur út á það að vernda borgararéttindi annars vegar og hins vegar lýðræðisumbætur í formi orðanna: Allir eiga rétt á að koma að ákvörðunum sem þá varðar. Landsmönnum finnst réttilega auðlindin varða þá. Þeir vilja réttilega fá að koma að ákvörðunum um það hvernig henni skuli ráðstafað. Því máli hef ég fylgt eftir í atvinnuveganefnd. Ég þarf náttúrlega að velja og hafna. Ég fylgdi eftir málinu um stöðugleikaskattinn og nauðasamningana. Það er stórt og mikilvægt mál sem þurfti að fylgja eftir og passa. Við náðum að setja inn í þau frumvörp ákvæði sem tryggðu að erfiðara yrði að falla í þann freistnivanda að fara að nota þessa peninga á óábyrgan hátt. Það skaðar verulegar réttarstöðu landsins ef menn fara að verja þeim peningum á þann hátt að það stuðli að óstöðugleika því að þá hverfur réttarstaða okkar. Það var mikilvægt. Þannig haga ég mínu starfi á þinginu og hef fylgt þessu makrílmáli eftir og þeim þáttum þess sem varða nákvæmlega þetta og er enn að gera núna þegar þetta nýja makrílfrumvarp kemur fram, er afgreitt á tveimur dögum og á þann hátt að landsmenn geta ekki haft lýðræðislega aðkomu að því eins og þeir hafa kallað eftir. Það er skýringin, ef hv. þm. Jón Gunnarsson hefur ekki áttað sig á því.