144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[11:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn veit að sjálfsögðu vel að ég er ekki að tala um að það eigi að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort úthluta eigi 2 þúsundum tonnum í staðinn fyrir 800. Þetta snýst um það hvort möguleiki sé á því að það sé verið að festa makrílinn eða færa hann með einhverjum hætti inn í kvótakerfið, auðvelda það og styrkja réttarstöðu þeirra sem síðan á endanum vilja færa hann inn í hið hefðbundna kvótakerfi. Landsmenn vilja ekki að það sé verið að ráðstafa auðlind þeirra með lögum til lengri tíma en eins árs. Ef það er verið að færa þetta inn í kvótakerfið þá er verið að gera það. Um það snýst málið. Undir það skrifuðu 51 þúsund Íslendingar. Við erum mögulega að fara gegn því með því að samþykkja þetta. Þetta er ekki stærsta mál í heimi, en þetta gæti samt sem áður þýtt það að við missum tækifærið til að geta ráðstafað makrílnum með öðrum hætti en hefur verið gert. Landsmenn fá ekki tækifæri til að koma að þeirri ákvörðun. Um það snýst málið.