144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[11:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Til að skýra enn einu sinni afstöðu mína gagnvart þessu litla frumvarpi sem flutt er af meiri hluta atvinnuveganefndar vísa ég til 1. umr. um málið í gær þar sem ég útskýrði hvers vegna við erum ekki flutningsmenn að þessari tillögu. Í stuttu máli gengur frumvarpið út á að í 1. gr. er verið að styrkja heimildir og betrumbæta varðandi uppboð á aflaheimildum gagnvart 5,3% pottinum. Við sáum að á þessu fiskveiðiári dagaði ákveðið magn uppi sem ekki var þá hægt að bjóða upp, og við viljum fá aðrar tegundir í staðinn sem nýtast betur í þær aðgerðir sem gerðar eru með þessum 5,3%.

Í 2. gr. frumvarpsins er verið að breyta því að við breytingu á skipastól geti menn selt skipið eitt og sér án aflaheimilda. Dæmi er tekið um skip sem verið er að selja núna sem hefur veiðireynslu af makrílveiðum. Það er auðvitað umdeilt hvort það er aflahlutdeild sem þar er, en svo er ekki, en þá er verið að auðvelda mönnum að selja skip án þess að kvóti fylgi með. Ef þetta ákvæði væri ekki í gildi hefðu menn farið ákveðna hjáleið, eins og eru því miður til, með því að selja skip úr landi. Þá selst skip án aflaheimilda. Aflaheimildirnar eru eftir hjá viðkomandi fyrirtæki og í raun og veru hefði verið hægt að kaupa skipið inn í landið daginn eftir til að selja það aftur þeim sem vill kaupa það til að auka skipastólinn eða hagræða og taka út eldri og úreltari skip.

Í 3. gr. er verið að veita lokafrest til 1. september 2016 til að framlengja um eitt ár svokallað Stakkavíkurákvæði, þar sem eitt fyrirtæki er fyrir ofan kvótaþakið í krókaaflamarkskerfinu.

Það er sambærilegt og við lentum í á sínum tíma gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur um uppskiptingu fyrirtækisins. Þar þurftum við nokkrum sinnum að framlengja það ákvæði vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á Orkuveitu Reykjavíkur. Að lokum gekk það í gegn. Það á að vera alveg skýrt í mínum huga að þetta ákvæði verður ekki framlengt oftar, nú verða menn bara að klára þetta fyrir 1. september 2016.

Í 4. gr. er verið að setja 2.000 lestir af makríl til smábáta og auka heimildir þeirra úr um 7.500 tonnum í 9.500 tonn. Í d-lið er verið að lækka gjaldið sem smábátar einir greiða, 16 kr. fyrir síld og makríl í 8 kr., eða um helming, sem mér finnst allt í lagi til að koma til móts við smábáta sem veiða síld. Oft og tíðum veiða menn þetta bara til að eiga í beitu. Mér sýnist svona fljótt á litið að ef maður tæki síldina sem slíka, þessar 800 lestir, ef ég hef ekki ruglast á núllum í iPad-inum, séu það 6,4 millj. kr. Mér finnst það bara allt í lagi að smábátaeigendur greiði aðeins lægra fyrir síldina en verið hefur. Í fyrra ætluðum við að hækka það samkvæmt tillögu ráðuneytis í 23 kr., en nefndin setti það í 16 kr. Það er nú allt og sumt sem verið er að gera í þessu frumvarpi.

Eins og ég segi tel ég það vera misskilning að hér sé verið að setja eitthvað fast inn eða ákveða eitthvað frekar gagnvart makríl. Það mál dagaði uppi. Það bíður næsta þings og kemur þá til umræðu. En ákvæðið um 2.000 lestir af makríl til smábáta er engin viðurkenning á einu eða neinu hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég láta koma fram sem skýringu. Ég skýri það kannski betur í atkvæðaskýringu á eftir þegar fleiri hlusta, en ég styð þetta mál þó að ég sé ekki einn af flutningsmönnum.