145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Við höfum að undanförnu fylgst náið með fréttum af atburðum sem minna okkur á hve þakklát við getum verið fyrir það líf sem okkar góða land og friðsama samfélag hefur búið okkur svo langt frá heimsins vígaslóð. Þessar aðstæður setja á herðar okkur skyldu til að koma þeim sem eru í neyð til hjálpar á þann hátt sem við best getum, eins og ég mun víkja að síðar.

Við búum í góðu landi þar sem sterkt samfélag, innviðir og auðlindir eru slík að enginn á að þurfa að líða skort. Auðvitað er margt enn óunnið og því miður búa enn allt of margir við erfiðar aðstæður. Sá dagur mun aldrei koma að hægt verði að segja að öllum verkefnum stjórnmálanna sé lokið, en með bjartsýni og vilja til að gera betur fyrir alla íbúa landsins má samt ná langt. Möguleikar okkar á að leysa ókláruð verkefni vel og takast á við áskoranir verða þeim mun meiri ef við áttum okkur á því hvaða árangri við höfum náð nú þegar og látum hann verða okkur hvatningu til að gera enn betur.

Fá dæmi eru um að lönd hafi náð sér jafn hratt á strik efnahagslega og Ísland á síðustu tveimur árum. Það hefur gerst á sama tíma og nágrannaþjóðirnar í viðskiptalöndum okkur glíma áfram við miklar efnahagsþrengingar sem ekki sér fyrir endann á. Efnahagslega hefur Ísland vaxið hraðast Evrópuþjóða frá 2013. Kaupmáttur launa hefur aukist um 10% frá því að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við. Þetta er einstakur árangur í alþjóðlegum samanburði. Öll alþjóðlegu matsfyrirtækin hækkuðu lánshæfiseinkunn Íslands í sumar eftir kynningu á losun fjármagnshafta. Slík hækkun mun leiða til betri lánskjara og lækkunar á vaxtagjöldum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2016 sem fjármálaráðherra kynnti fyrr í dag verður íslenska ríkið rekið með afgangi þriðja árið í röð og rekstrarafgangurinn verður líklega hlutfallslega meiri en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu að Noregi undanskildum. Þetta skiptir gríðarmiklu máli því að það þýðir að við, ólíkt flestum Evrópulöndum, erum hætt að safna skuldum. Við erum að greiða þær niður. Í stað þess að ýta vandanum á undan okkur og leggja auknar byrðar á framtíðarkynslóðir erum við að búa í haginn fyrir framtíðina og gera okkur kleift að nýta meira fjármagn í það sem mestu máli skiptir, velferðarkerfið og sterka innviði. En jafnvel þótt íslenska ríkið sé rekið með afgangi munum við auka framlög til allra mikilvægustu málaflokkanna, ekki bara í krónutölu heldur raunverulegum verðmætum. Gera má ráð fyrir að lífeyrir eldri borgara og öryrkja hækki meira á næsta ári en hann hefur nokkurn tímann gert áður. Þó eru stjórnvöld meðvituð um að þar megi ekki láta staðar numið. Framlög til heilbrigðismála hafa aldrei verið jafn mikil. Það sama á við um framlög til nánast allra velferðarmála, félagsmála og almannatrygginga. Sem dæmi má nefna að hrein aukning framlaga til heilbrigðis- og félagsmála á kjörtímabilinu nemur 26 milljörðum kr. og er þá bæði búið að undanskilja launahækkanir og verðlagshækkanir. Þetta samsvarar því að hálfur Landspítali hafi bæst við velferðarútgjöldin á fyrri hluta kjörtímabilsins. Allar líkur eru á því að svigrúm verði til að gera enn betur á næstu árum. Því má með sanni segja að ríkisstjórnin sé nú að kynna velferðarfjárlög.

Fjárlagafrumvarpinu fylgir reyndar mjög stór og óvenjulegur fyrirvari, en líka mjög jákvæður. Með losun fjármagnshafta og uppgjöri slitabúa bankanna mun staða ríkissjóðs og möguleikinn til að standa undir grunnþjónustu batna til mikilla muna. Þótt þau hundruð milljarða sem stöðugleikaframlag eða stöðugleikaskattur mun skila verði ekki nýtt í framkvæmdir mun leiðrétting á stöðu ríkissjóðs þýða að við getum byggt upp hraðar þar sem vaxtagjöld munu minnka. Þetta tökum við ekki með í reikninginn fyrr en það er orðinn hlutur. Þess vegna má gera ráð fyrir að hægt verði að ráðast hraðar í þjóðþrifamál á borð við ljósleiðaravæðingu landsins, en undirbúningi þess stórátaks er nú lokið.

Kjör Íslendinga hafa batnað hraðar en kjörin nokkurs staðar annars staðar. Takist okkur að koma í veg fyrir að verðbólgan fari á skrið má búast við áframhaldandi kjarabótum. Aldrei hefur jafn mikið verið á bak við jafn miklar launahækkanir og í síðustu samningum. Engu að síður er ástæða til að hafa áhyggjur af því að launahækkanirnar fari út í verðlagið með þeim afleiðingum að þær skili sér ekki með þeim hætti sem til var stofnað. Því er mikilvægt að við vinnum saman að því að auka framleiðni og verðmætasköpun svo launahækkanir missi ekki marks með hækkun verðlags.

Hraður vöxtur efnahagslífsins og miklar launahækkanir leiða því miður oft til aukinnar misskiptingar, en það á ekki við hér, ekki núna. Nú hefur það gerst á Íslandi á sama tíma og hagvöxtur eykst og laun hækka að tekist hefur að ná meiri jöfnuði en dæmi eru um í sögu landsins. Árið 2014 varð tekjudreifing jafnari en áður og tekjujöfnuður á Íslandi er nú meiri en í öðrum löndum. Í mörgum löndum er nú mikið rætt um hvernig hægt sé að bregðast við aukinni misskiptingu. Þar setja menn sér markmið um að komast á mörgum árum eða áratugum í svipaða stöðu og við höfum þegar náð.

Stærstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa allar miðað að því að rétta stöðu heimilanna og bæta kjörin í landinu. Fjárlagafrumvarpið er mikilvægur liður í framhaldi þeirrar vinnu. Með því er ráðist í verulegar breytingar á skattlagningu og gjaldtöku ríkisins með það að markmiði að styrkja heimilisbókhald fólks með millitekjur og lægri tekjur. Með því má áfram gera ráð fyrir að kjör allra batni, en þó sérstaklega millitekju- og láglaunafólks, og þannig batni lífskjör á Íslandi áfram en um leið aukist jöfnuður áfram. Tekjuskattur lægri og millitekjuhópa lækkar og tollar verða afnumdir á yfir 1.600 vöruflokkum, en með því styrkjum við stöðu íslenskra neytenda og íslenskrar verslunar. Innlend matvæli hafa árum saman haldið aftur af verðbólgu á Íslandi. Nú á lækkun annarra vara að skila því sama. Þó skiptir öllu máli að verslanir skili áfram til neytenda þeim miklu lækkunum sem fylgja munu afnámi tolla. Þar þarf almenningur að vera vel á verði.

Efnahagsleg staða Íslands hefur styrkst mikið að undanförnu og einkennist nú af stöðugleika með lágri verðbólgu, litlu atvinnuleysi, auknum kaupmætti, lækkun skulda og hallalausum ríkisrekstri. Gangi hagspár eftir munum við upplifa lengsta samfellda hagvaxtarskeið í seinni tíma hagsögu Íslands.

Sagan kennir okkur að við þurfum að fara að öllu með gát þegar jákvæðir hagstraumar leika um okkur. Sérstaklega er ástandið á vinnumarkaði tvísýnt og hefur nú verið um nokkurt skeið. Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, taki af skarið og sníði þá agnúa af umgjörðinni sem þeir telja versta. Að öðrum kosti er ólíklegt að við náum þeirri festu í umgjörð vinnumarkaðar sem er nauðsynleg til þess að verðbólga verði viðráðanleg. Annars er hætt við að hún fari af stað líkt og hún hefur gert stærstan hluta lýðveldistímans.

Aðilar vinnumarkaðarins þurfa líka að nota tækifærið sem nú gefst til að vinna með stjórnvöldum að því að bæta fjármálakerfi landsins fremur en að standa vörð um óbreytt kerfi verðtryggingar.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga í lok maí sl. kemur fram að ráðist verði í átak með byggingu allt að 2.300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016–2019, þó að hámarki 600 íbúða á ári. Það er jafn mikill fjöldi íbúða og allar íbúðir á Egilsstöðum og Ísafirði samanlagt. Ef stofnað væri sérstakt sveitarfélag um íbúðirnar, sem stendur þó ekki til, yrði það tíunda stærsta sveitarfélag landsins. Með nýju íbúðunum verður einkum komið til móts við fólk í lægstu tveimur tekjufimmtungunum. Þannig verður tekjulágum fjölskyldum veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Einnig er unnið að nýju húsnæðisbótakerfi sem felur í sér verulega aukinn stuðning við leigjendur.

Virðulegur forseti. Framlög til Landspítalans hafa stóraukist á kjörtímabilinu og munu gera það áfram á næsta ári, en um leið er mikilvægt að gleyma því ekki að heilbrigðisþjónustan er stærri en bara Landspítalinn og víða um land hafa heilbrigðisstofnanir ekki enn endurheimt fyrri styrk. Við því munum við þurfa að bregðast. Jafnframt þurfum við að halda áfram að fjölga hjúkrunarrýmum, en nú er verið að ljúka við áætlun um byggingu þriggja hjúkrunarheimila með um 200 ný hjúkrunarrými. Heilsugæslan verður styrkt sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga og greiðsluþátttöku sjúklinga verður breytt til að verja þá sérstaklega sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda. Þannig greiða þeir ekkert umfram ákveðið hámark árlega.

Verið er að hrinda af stað stórfelldri aðgerð til að stytta biðlista eftir verkföll. Með kjarasamningum og niðurstöðu gerðardóms eru störf í íslenskri heilbrigðisþjónustu orðin samkeppnishæf við sambærileg störf annars staðar á Norðurlöndum. Skilvirkasta fjárfestingin sem hægt er að ráðast í á sviði heilbrigðisþjónustu felst í forvörnum. Það á alveg sérstaklega við hjá þjóð þar sem meðalaldurinn mun fara hækkandi á komandi árum og áratugum. Þess vegna vinnur ráðherranefnd um lýðheilsu nú að því að undirbúa og innleiða átak til að bæta heilsu og lífsgæði landsmanna á öllum aldri.

En huga þarf að fleiru til að auka lífsgæði í landinu. Þar skiptir menntun sköpum. Framtíðarárangur okkar sem þjóðar mun velta á því hvernig til tekst með menntun, rannsóknir og vísindi. Vísbendingar eru um að Íslendingar hafi á undanförnum árum dregist aftur úr samanburðarþjóðum á ýmsum sviðum menntamála, m.a. í grunnmenntun barna í lestri og stærðfræði. Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin bregðast nú við þessu með átaki til að efla læsi og bæta árangur menntakerfisins allt frá leikskóla að háskóla.

Framlög til vísinda-, rannsókna- og þróunarstarfs verða áfram stóraukin en um leið munu einföldun regluverks, jákvæðir hvatar og aukin áhersla atvinnulífsins á nýsköpun verða til þess að ótal hugmyndir munu verða að veruleika og skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið til framtíðar. Um leið er unnið að því að styrkja rekstur helstu menningarstofnana eftir mikinn niðurskurð undanfarinna ára ásamt því að efla sjóði á sviði menningar og lista. Sérstaklega verður hugað að barnamenningu í því sambandi.

Árangur íslenskra íþróttamanna að undanförnu er stórkostlegur og mikilvægt að muna að hann er afrakstur þrotlausrar vinnu íþróttamannanna sjálfra, aðstandenda þeirra, íþróttahreyfingarinnar og uppbyggingar liðinna ára. Í samræmi við stjórnarsáttmálann verður stuðningur við félagasamtök á sviði íþrótta- og æskulýðsmála aukinn sem og sjálfboðahreyfinga á borð við björgunarsveitirnar og önnur hjálparsamtök.

Gífurlegur vöxtur í ferðaþjónustu hefur ekki orðið til af sjálfum sér. Við þurfum að haga aðstæðum þannig að ávinningur verði sem mestur af þessari stærstu útflutningsgrein landsins og því að góður árangur nú skili sér í uppbyggingu til framtíðar. Þar má ekki ráða för einföld hagnaðarvon til skamms tíma með ódýrum óaðlaðandi byggingum og niðurtroðinni náttúru. Unnið er að samræmdri stefnu í ferðamálum. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur verið efldur til muna og ríkisstjórnin leggur áherslu á einföldun regluverks fyrir greinina og fyrir atvinnulífið almennt. Fjölmörg smærri fyrirtæki hafa þurft að eyða óþarflega miklum tíma og fyrirhöfn í flókið regluverk. Slíkt dregur úr nýsköpun og skapar hættu á neðanjarðarstarfsemi. Unnið er að því að koma upp einni gátt svo hægt verði að sækja um öll leyfi og skila öllum gögnum á einum stað.

Þessar breytingar munu ekki síður hafa jákvæð áhrif á stærri rekstur og iðnað. Það er reyndar sérstakt ánægjuefni hversu mörg stór iðnaðarverkefni eru í burðarliðnum á Íslandi um þessar mundir. Fjárfestar, innlendir sem erlendir, hafa öðlast mikla trú á framtíð landsins. Til að verja þann árangur sem náðst hefur og halda áfram að sækja fram er mikilvægt að kunna að meta árangurinn sem hefur náðst.

Íslendingar hafa náð árangri á mörgum sviðum en tvennt er nefnt umfram annað sem dæmi um svið þar sem Ísland getur veitt öðrum þjóðum leiðsögn, umhverfismál og sjávarútvegur. Nær öll íslensk orka er framleidd með umhverfisvænum endurnýjanlegum orkugjöfum. Ekkert annað land kemst nálægt því að ná sama hlutfalli grænnar orku. Nú er unnið að því að fjölga rafmagnsbílum og öðrum umhverfisvænum bifreiðum og meira að segja skip gætu verið knúin raforku í framtíðinni eins og Norðursigling á Húsavík hefur þegar sýnt fram á. Það skýtur því skökku við að hér á landi sé stundum talað eins og orkuframleiðslan sé syndsamleg, svo ekki sé minnst á iðnaðinn sem nýtir orkuna.

Hitt sviðið er sjávarútvegur. Víðast hvar er óveiddur fiskur lítils virði og sjávarútvegur í samanburðarlöndunum er ríkisstyrktur á sama tíma og fiskstofnar eru ofveiddir. Hér á landi hefur tekist að haga málum þannig að sjávarútvegur skilar þjóðarbúinu verulegum tekjum á sama tíma og stofnarnir eru nýttir á sjálfbæran hátt og greinin hefur orðið undirstaða mikillar nýsköpunar og fjölmargra árangursríkra nýsköpunarfyrirtækja.

Viðurkennum að Ísland stendur sig vel á sviðum umhverfismála og sjávarútvegsmála og látum það verða okkur hvatning til að gera enn betur. Ný náttúruverndarlög og landsskipulagsstefna og aukin framlög til skógræktar og landgræðslu eru meðal þess sem mun hjálpa okkur að vernda umhverfið enn betur en áður. Í sjávarútvegi munum við leggja áherslu á að halda áfram að byggja upp fiskstofna og stuðla að aukinni verðmætasköpun en vinna um leið gegn samþjöppun í greininni og að því að viðhalda störfum í byggðarlögum um allt land.

Virðulegur forseti. Vinnu nefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar miðar vel og útlit er fyrir að samstaða geti náðst um veigamiklar og mikilvægar breytingar með ákvæði um auðlindir og sögulegar breytingar í átt að stórauknu beinu lýðræði. Ég hvet til góðrar samvinnu allra flokka um framhaldið.

Á haustþingi er stefnt að því að leggja fram frumvarp um stofnun millidómstigs með það að markmiði að treysta á dómskerfi og tryggja réttaröryggi.

Á næstu vikum birtist jafnframt nýtt hagsmunamat vegna tækifæra og úrlausnarefna á norðurslóðum. Gríðarlega miklu máli skiptir að okkur auðnist að nýta vel þau tækifæri sem fyrir liggja vegna þróunarinnar þar.

Góðir landsmenn. Margt gengur vel á Íslandi þessa dagana og við höfum ástæðu til að vera bjartsýn á framtíðina en það þýðir líka að við höfum bæði möguleika á og skyldu til að láta gott af okkur leiða fyrir þjóðir sem búa við kröpp kjör. Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í fjögur ár og talið er að meira en helmingur landsmanna hafi yfirgefið heimili sín, um 12 milljónir manna. Alls er talið að í heiminum séu um 60 milljónir flóttamanna. Þótt straumur flóttamanna til Evrópu sé ekki nýtilkominn hefur hann aukist hratt að undanförnu og um leið hefur vitund fólks og umræða um vandann aukist til mikilla muna. Íslensk stjórnvöld telja gríðarlega mikilvægt að við og aðrar þjóðir bregðumst eins vel við þessum vanda og kostur er. Þess vegna var ráðherranefnd um málefni flóttamanna og innflytjenda komið á til að samræma vinnu ráðuneyta og stofnana svo hún megi verða sem árangursríkust.

Við höfum líka séð mikla góðvild og hjálpfýsi almennings á Íslandi og víða um lönd og mikinn vilja til að láta gott af sér leiða. Það skiptir miklu máli. Vandinn er svo stór að það mun þurfa alþjóðlega samvinnu til að bregðast við honum. Þetta er alþjóðlegt vandamál og stjórnvöld í ólíkum löndum þurfa að koma sér saman um viðbrögð, stefnu og markmið. Úrlausnarefnið er gríðarlega umfangsmikið. Við munum þurfa að auka framlög til málaflokksins umtalsvert og undirbúningsvinna að því að bregðast við þróuninni sem við höfum fylgst með að undanförnu þarf að fara á fullan skrið. En við þurfum líka að meta hluti á borð við hvort hægt sé að einfalda ættleiðingar barna frá Sýrlandi eða öðrum stríðshrjáðum löndum. Þúsundir sýrlenskra barna eru nú munaðarlausar og búa við erfiðar aðstæður.

Í öllum sínum aðgerðum verða Ísland og önnur Evrópulönd að gæta þess að senda ekki út þau skilaboð að þau aðstoði fólk eingöngu ef það leitar á náðir glæpagengja og hættir lífi sínu til að komast til Evrópu. Þess vegna verðum við líka að huga að þeim mikla fjölda flóttafólks sem býr við afar erfiðar aðstæður í löndunum í kringum Sýrland. Við erum eflaust öll sammála um að við eigum að leggja áherslu á að nýta möguleika okkar til að framkvæma sem best skyldu okkar og vilja til að aðstoða fólk í neyð eftir bestu getu.

Virðulegur forseti. Ísland er gott land. Það er betra í dag en í gær og verður enn betra á morgun. Lífskjör batna hratt. Efnahagslegur jöfnuður er hvergi meiri og hann er enn að aukast. Við búum við öryggi í fallegu, hreinu og heilnæmu umhverfi. Með hverjum degi eykst nýsköpun og ný framsækin fyrirtæki eru stofnuð. Ríkið leitast líka við að bæta rekstur sinn og þjónusta borgarana betur og um leið viljum við aðstoða þjóðir í neyð.

Á Íslandi blasa hvarvetna við uppbygging og framfarir. Þó stöndum við enn frammi fyrir stórum úrlausnarefnum. Reynslan sýnir að við getum leyst vandamálin og nýtt tækifærin. Til að okkur auðnist að gera það þurfum við að kunna að meta það sem vel hefur gengið og láta það verða okkur hvatning til að gera enn betur. Það höfum við gert og það munum við gera áfram.